Vegagerðin hefur nú skoðað nær sömu leið og Multiconsult kallaði leið 3. Niðurstaðan er að sú leið (A3) er nærri fjórum milljörðum króna dýrari lausn en leið Þ-H (um Teigsskóg), er nokkum km lengri, með minna umferðaröryggi og gæti tafið framkvæmdir um 2-3 ár.
Niðurstaða könnunar Vegagerðarinnar á svokallaðri R-leið um Reykjanes og utanverðan Þorskafjörð er að hún er töluvert dýrari en Þ-H leiðin sem Vegagerðin mælir með, umferðaröryggi er minna á leið R, sú leið er lengri en Þ-H og sú leið, eða leið svipuð henni, myndi tefja framkvæmdir um 2-3 ár, sé horft framhjá hugsanlegum kærumálum á báðum leiðum.
Í meðfylgjandi skýrslu er leið R tekin til skoðunar og gerð grein fyrir þeim breytingum sem stofnunin telur nauðsynlegt að gera til að uppfylltar séu þær kröfur sem gilda um hönnun nýrra stofnvega á vegakerfi Íslands. Er sú leið nefnd leið A3 til aðgreiningar frá leið Multiconsult. Í skýrslunni er jafnframt að finna samanburð leiðar A3 og leiða Þ-H og D2 þar sem tekið er á helstu þáttum sem skipta máli varðandi ákvörðun um leiðarval.
Afstaða Vegagerðarinnar eftir að hafa unnið þessa skýrslu er sú að leið Þ-H sé besta leiðin til bættra vegasamganga á sunnanverðum Vestfjörðum. Rökin fyrir því eru helst eftirfarandi í samanburði við leið A3:
•Umferðaröryggi er að öllum líkindum minna á leið A3.
•Leið A3 er töluvert lengri en leið Þ-H eða 4,7 km.
•Kostnaður við leið A3 er verulega meiri en við leið Þ-H sem nemur tæpum 4 milljörðum kr.
•Ljóst er að umhverfisáhrif eru töluverð á leið A3. Kanna þarf matsskyldu og líklegt að gerð verði krafa um umhverfismat.
•Efnisþörf fyrir leið A3 er meiri og opna þarf fleiri námur.
•Verði farin leið A3 mun það líklega tefja framkvæmdir um tvö til þrjú ár.
Heimild: Vegagerdin.is