Vegagerðin hefur boðið út fyrsta áfangann í breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss, en áætlað að verja alls fimm og hálfum milljarði króna til verksins á næstu fjórum árum. Myndband frá Vegagerðinni, sem sýnir hvernig vegurinn mun líta út í framtíðinni, var sýnt í fréttum Stöðvar 2.
Útboð fyrsta áfangans hefur nú verið auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Það er tveggja og hálfs kílómetra kafli, milli Varmár og Gljúfurholtsár, ásamt hliðarvegum, sem tengjast nýjum vegamótum, annars vegar Ölfusvegar frá Ölfusborgavegi að Hvammsvegi og hins vegar Ásnesvegi frá Vallavegi að Ásnesi.
Inni í verkinu er einnig breikkun brúar yfir Varmá og undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi. Tilboð verða opnuð þann 13. nóvember og á þessum áfanga að vera að fullu lokið þann 15. september á næsta ári.
Áform Vegagerðarinnar miða við svokallaðan tveir plús einn veg, með aðskildum akreinum, sem hægt verði að breikka í tveir plús tveir veg í framtíðinni.
Samkvæmt samgönguáætlun, sem er til umræðu á Alþingi, er ráðgert að verja alls fimm og hálfum milljarði króna á næstu fjórum árum í breikkun vegarins milli Kamba og Selfoss og er áætlað að verkinu verði lokið árið 2022.
Heimild: Visir.is