Home Fréttir Í fréttum Breikkun þjóðvegarins bætir öryggið í Dölum

Breikkun þjóðvegarins bætir öryggið í Dölum

157
0
Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Öryggi vegfarenda hefur verið stórbætt á Vestfjarðavegi um Dalasýslu með langþráðum lagfæringum á sex kílómetra kafla um Saurbæ. Sýnt var frá framkvæmdum í fréttum Stöðvar 2.

<>

Þetta er vegurinn sunnan Gilsfjarðarbrúar meðfram Skriðulandi um Hvolsdal en þótt hann væri malbikaður þá var hann á löngum köflum svo mjór, aðeins fimm og hálfur metri á breidd, að ökumenn á venjulegum fólksbílum áttu í vandræðum þegar þeir mættu öðrum bílum, og sérstaklega flutningabílum. Þá var sérlega varasöm blindhæð við bæinn Máskeldu.

En nú er verktakinn Borgarverk að mestu búinn að ljúka endurbótum á þessum 6,4 kílómetra langa kafla Vestfjarðavegar. Búið er að taka af blindhæðina og breikka veginn um tvo metra, upp í sjö og hálfan metra, þannig að hér eftir ættu ökumenn ekki að þurfa að skjálfa á beinunum þegar þeir mæta öðrum bílum.

Vegagerðin samdi við lægstbjóðandann, Borgarverk, á grundvelli 177,7 milljóna króna tilboðs. Alls buðu fimm fyrirtæki í verkið en tilboð voru opnuð í september í fyrra.

Malarefni í námu, sem upphaflega stóð til að nota, reyndist hins vegar ónothæft og þurfti að sækja efni í aðra námu mun fjær. Af þeim sökum er ljóst að verkið mun reynast talsvert dýrara en sem nemur tilboðsfjárhæð, samkvæmt upplýsingum Sæmundar Kristjánssonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Búðardal.

Heimild: Visir.is