Home Fréttir Í fréttum Suðurnesjalína 2: Heimild til umráðatöku áður en mat á bótum fer fram...

Suðurnesjalína 2: Heimild til umráðatöku áður en mat á bótum fer fram felld niður

155
0
Reykjaneslína Mynd: Landsnet

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi fimm úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sem heimiluðu Landsneti umráðatöku afmarkaðs svæðis innan Sveitarfélagsins Voga vegna byggingar og reksturs Suðurnesjalínu 2, án þess að matsnefndin hefði lokið matsferli eignarnáms umræddra svæða með úrskurði um fjárhæð eignarnámsbóta. Dómurinn varðar hins vegar ekki ákvarðanir iðnaðarráðherra frá 24. febrúar 2014 um eignarnám.

<>

Landsnet óskaði eftir umræddum heimildum á síðasta ári þegar áætlað var að framkvæmdir gætu hafist við Suðurnesjalínu 2. Útgáfa framkvæmdaleyfa hefur hins vegar tekið lengri tíma en búist var við, framkvæmdir eru ekki hafnar, og því hefur ekki reynt á þessar undanþáguheimildir.

Í málflutningi fyrir dómstólum kröfðust landeigendur þess að umræddar undanþáguheimildir yrðu felldar niður sökum þess að málsmeðferð til ákvörðunar bóta fyrir matsnefnd eignarnámsbóta ætti ekki að taka langan tíma en í lok þeirrar meðferðar hefur Landsnet samkvæmt lögum heimild til umráðatöku, gegn greiðslu eignarnámsbóta. Héraðsdómur hafnaði kröfu landeigenda en Hæstiréttur snéri þeirri niðurstöðu við og felldi úr gildi umræddar heimildir félagsins til umráðatöku áður en mat á bótum hefur farið fram.

Í yfirlýsingu frá lögmanni Landsnets í kjölfar dóms Hæstaréttar kemur fram að niðurstaða Hæstaréttar valdi vonbrigðum en dómurinn útiloki ekki að af hálfu Landsnets verði óskað að nýju eftir umráðatöku þótt málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sé ekki lokið. Til þess þurfi þó ekki að koma því matsnefndin hafi ákveðið að málflutningur um fjárhæð eignarnámsbóta fari fram 2. júní næstkomandi og í kjölfarið verði kveðinn upp úrskurður um bætur sem feli í sér heimild að lögum um umráðatöku.

Dómur Hæstaréttar: Nr. 53/2015

Yfirlýsing lögmanns Landsnets (pdf)

Heimild: Landsnet