Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafa verið í frosti vegna ágreinings verkkaupa og verktaka

Framkvæmdir hafa verið í frosti vegna ágreinings verkkaupa og verktaka

388
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Ný stólalyfta í Hlíðarfjalli verður ekki tilbúin í vetur. Framkvæmdir hafa verið í frosti í þrjá mánuði vegna ágreinings verkkaupa og verktaka. Vonbrigði, segir forstöðumaður skíðasvæðisins.

<>

Vinir Hlíðarfjalls, samtök velunnara skíðasvæðisins, keyptu stólalyftu í fyrra með styrk frá Samherja. Heildarkostnaður var áætlaður um 360 milljónir króna.

Lyftan verður sunnan við efri hluta Fjarkans, stólalyftunnar sem er þar fyrir, og þaðan verður hægt að fara upp um 1200 metra. Lyftan gjörbreytir aðstöðu í fjallinu með því að gera efri hlutann aðgengilegri.

Mynd með færslu
Hér sést lega nýju lyftunnar í Hlíðarfjalli Mynd: Hlíðarfjall

Lyftan kom til landsins í vor og hófst þá vinna við uppsetningu. „Við vorum búnir að undirbúa svona slóða um fjallið, byrjaðir á nokkrum undirstöðum og þess háttar,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli.

Framkvæmdir stöðvaðar vegna ágreinings

Jarðvinna, sem fyrirtækið G. Hjálmarsson fékk eftir útboð, reyndist umfangsmeiri en áætlað var. Ágreiningur kom þá upp um það hver ætti að bera kostnaðinn af vinnunni. Vinir Hlíðarfjalls telja að verktakinn hafi farið út fyrir verksvið sitt, en verktakinn telur að hann hafi starfað í samræmi við verklýsingu.

Í verksamningi hafi verið tekið fram að magntölur gætu breyst, en einingaverð skyldi ráða.

Framkvæmdir voru stöðvaðar um miðjan júlí. Þá var verkið afar skammt á veg komið, og hefur ekkert verið gert síðan. Því er ljóst að lyftan verður ekki tekin í notkun í vetur, eins og til stóð.

„Það eru náttúrulega vonbrigði, ekki bara fyrir okkur heldur alla skíðaáhugamenn og snjóbrettafólk. Það var búið að byggja upp svolitla spennu og svo verður spennan ekki,“ segir Guðmundur Karl.

Hefði verið hægt að leysa málið fyrr

Hann telur að bæjaryfirvöld hefðu geta stigið inn í sumar og leyst úr deilunni. Skíðasvæðið hafi þó ekki verið ofarlega á þeirra dagskrá svo árum skiptir og því þurfi einkaaðilar að standa straum af uppbyggingu.

„Þú sérð það, það hefur ekkert gerst hér í tíu ár, þá held ég að menn séu ekki að sinna þessu,“ segir Guðmundur Karl.

Verktakinn, Guðmundur Hjálmarsson, segist í samtali við fréttastofu hafa boðið afslátt svo höggva megi á hnútinn. Svar hefur ekki borist frá Vinum Hlíðarfjalls.

Guðmundur Karl hefur trú á að deilan verði leyst og framkvæmdir hefjist innan tíðar. „Bara um leið og snjórinn fer næsta vor, þá getum við byrjað á fullri ferð. Ég held að lyftan fari örugglega upp næsta sumar,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is