Home Fréttir Í fréttum 500 milljóna svínabú við Þorlákshöfn

500 milljóna svínabú við Þorlákshöfn

298
0
Mynd: Vb.is/Haraldur Guðjónsson

Síld og fiskur stefnir að því að byggja nýtt svínabú á lóðum nálægt iðnaðarsvæði vestan við Þorlákshöfn. Fyrirtækið hefur sótt um fyrrnefnt landsvæði og á nýlegum fundi skipulags-, bygginga- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins Ölfus var greint frá því að fundað yrði með fulltrúum framkvæmdaaðila um fyrirhugaða uppbyggingu áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

<>

Sveinn Jónsson, framkvæmdastjóri Síldar og fisks, segir að málið sé því enn sem komið er á frumstigi.

„Það er nýlega búið að taka málið fyrir hjá skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins þar sem það þyrfti að ráðast í breytingar á deiliskipulagi til þess að hægt sé að reisa svínabúið.

Við teljum Þorlákshöfn vera hentuga staðsetningu þar sem sveitarfélagið er að fara í stórt skógræktarverkefni og því möguleiki til staðar að nýta úrganginn frá svínabúinu í skógræktina.

Því teljum við þessi tvö verkefni falla vel að hvort öðru og sjáum þarna mikið tækifæri fyrir sveitarfélagið sem og okkur.“

Liður í að auka framleiðsluna

Að sögn Sveins er ástæða þess að Síld og fiskur vill bæta við sig svínabúi tvíþætt.

„Í fyrsta lagi viljum við auka við framleiðsluna okkar. Við rekum þrjú svínabú í dag og stöndum fyrir um það bil 15-18% af landsframleiðslu á svínakjöti.

Búin þrjú eru meðalstór og erum við að byggja nýtt bú í stað þess að breyta eldri húsum þar sem það er óhagkvæmt að breyta slíkum húsum.

Í öðru lagi eru allar innréttingar fyrir nýja búið sérhannaðar fyrir gyltur og erum við með því að koma til móts við nýja reglugerð um velferð svína.

Við viljum að sjálfsögðu standast allar kröfur um aðbúnaðarhætti svínanna og á nýja búinu verður gott pláss í hverjum bás fyrir gylturnar og svo verða þær einnig í lausagöngu.

Þetta er því liður í því að bæta aðstöðu okkar og sömuleiðis að auka framleiðsluna.“

Spurður um hvað þessi fjárfesting komi til með að kosta, segir Sveinn að gert sé ráð fyrir 400-500 milljóna króna fjárfestingu en endanleg kostnaðaráætlun liggi þó ekki fyrir enn sem komið er.

Heimild: Vb.is