Endurskoða þarf framkvæmd fyrirhugaðrar Sundabrautar. Allar tillögur um þverun Kleppsvíkur eru margra áratuga gamlar. Frá þeim tíma að þær voru settar fram hafa orðið miklar breytingar og ýmsar forsendur mannvirkjagerðar í dag talsvert aðrar en áður voru.
Þetta er niðurstaða Jóns Þorvaldssonar aðstoðarhafnarstjóra Faxaflóahafna sf. en hann hefur tekið saman minnisblað og kynnt á fundi hafnarstjórnar. Jón bendir á að forsendur byggðaþróunar í dag séu aðrar en þær voru í upphafi. Spurning sé hvernig hraðbrautarforsendur ganga upp inni í miðri borgarbyggð.
Efast megi um það að Sæbrautin hafi afkastagetu til að taka við umferð frá Sundabraut verði ráðist í þá framkvæmd. Þess sjáist merki á álagstíma umferðar. Þetta segir Jón m.a. í minnisblaðinu. Hann segir að ýmis uppbyggingaáform á nálægum svæðum séu í farvatninu. Þeim fylgi óhjákvæmilega aukið umferðarálag á stofnbrautina, Sæbraut.
Fyrir Sundahöfn, sem megingátt vöruflutninga til höfuðborgarinnar og Íslands alls, sé það lykilatriði að vegatengingar við Sæbrautina verði góðar, að því er fram kemur í umfjöllun um samgöngumál þessi í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is