Home Fréttir Í fréttum Nær allar framkvæmdir miklu dýrari en til stóð

Nær allar framkvæmdir miklu dýrari en til stóð

250
0
Mynd: Bragi Valdimarsson - RÚV
Nánast algilt er að opinberar framkvæmdir fari fram úr kostnaðaráætlun. Lektor við Háskólinn í Reykjavík segir að verkefnin séu að meðaltali 60 prósent dýrari en lagt sé upp með. Stór innviðaverkefni séu fram undan og mikilvægt að betur takist til með þau.

Þórður Víkingur Friðgeirsson, verkfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík hefur rannsakað innviðaverkefni í 25 ár. „Okkar rannsóknir benda til þess að þegar stærri opinber framkvæmd fer á koppinn, sé um 90% líkur á því að hún fari fram úr kostnaðaráætlun og meðal framúrkeyrsla er í námunda við 60%,“ segir Þórður.

<>

Það stefnir í að Vaðlaheiðargöng verði tæplega tvöfalt dýrari en áætlað var. Líklegt er að heildarkostnaður þeirra endi í 16 til 17 milljörðum, samkvæmt þeim sem fer með framkvæmdina. sem upphaflega var áætlað að yrði 9 milljarðar.

Þá hefur kostnaður vegna hátíðarfundar á Þingvöllum í sumar sætt mikilli gagnrýni. Hann fór 41 milljón fram úr áætlun og kostaði alls 87 milljónir. Framkvæmdasýsla ríkisins fékk 8,6 milljónir króna fyrir sína aðkomu.

Framkvæmt hefur verið fyrir 415 milljónir á gömlum bragga og fylgihúsum við Nauthólsvík. Endurbætur voru gerðar á húsum sem voru reist árið 1943 sem gistihús fyrir þá sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll. Framkvæmdin fór um 250 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. 

Þórður segir undirbúning opinberra verkefna hér á landi vanburða. Hann telur að það þurfi að skilgreina snertiflötinn á milli þeirra sem framkvæma og þeirra sem taka ákvarðanir fyrir hönd almennings.

„Einkum og sér í lagi er ekki tekið tillit til áhættu og óvissu sem að í mörgum örðum löndum sem við viljum bera okkur saman við er skylda. Þá er líka þess að geta að framkvæmdin sjálf, verkefni og stjórnsýslan er líka mjög ófullburða á Íslandi miðað við hvað best þekkist,“ segir Þórður.

Fram undan eru stór innviðaverkefni eins og nýr landspítali. „Á teikniborðinu eru verkefni fyrir hundruð milljarða og mikilvægt að betur takist til um þau heldur en fortíðin hefur leitt í ljós. Þetta bitnar á þeim sem borga skatta og skyldur í borginni. Að menn geti ekki staðið að einföldum framkvæmdum þannig að kostnaðaráætlun standist er óboðlegt með öllu,“ segir Þórður.

Heimild: Ruv.is