Mókollur, félag Péturs Guðmundssonar, hagnaðist um rúma 2,2 milljarða króna á árinu 2017 en það er þriðjungi meiri hagnaður en árið á undan. Mestu munar um matsbreytingu fasteigna sem var 1,4 milljarðar á síðasta ári en um 750 milljónir árið 2016.
Mókollur er fjárfestingarfélag sem er að fullu í eigu Péturs og fjárfestir einkum í félögum tengdum byggingariðnaði og fasteignarekstri.
Innan samstæðunnar eru sautján félög, þar á meðal byggingarverktakinn Eykt. Verðmætasta eign Mókolls er hótelbyggingin við Höfðatorg sem er bókfærð á átta milljarða. Þá er skrifstofuhúsnæðið við Höfðatorg sem hýsir skrifstofur Reykjavíkurborgar bókfært á 4,2 milljarða króna og atvinnuhúsnæðið að Fosshálsi 25 á 2,3 milljarða.
Alls nema eignir Mókolls rúmum 30 milljörðum króna og eigið féð 11,7 milljörðum. Pétur bætti nýlega við hlut sinn í Steypustöðinni. Hann keypti 40 prósent og jók þannig hlut sinn upp í 90 prósent.
Heimild: Visir.is