Íbúar á Borgarfirði eystra hafa lengi barist fyrir endurbótum á þessum vegi. Í febrúar tók hópur Borgfirðinga sig til og steypti nokkurra metra kafla af veginum um Skriðurnar til að vekja athygli á slæmu ástandi hans. Mánuði síðar var samgönguráðherra afhentur undirskriftarlisti með á þriðja þúsund undirskriftum þar sem skorað var á ráðherrann að setja Borgarfjarðarveg á samgönguáætlun.
Vegagerðin hefur nú óskað eftir tilboðum í endurbyggingu á 4,8 km kafla á Borgarfjarðarvegi, frá Ytri Hvannagilsá í Njarðvík, um Njarðvíkurskriður að Landsenda á Borgarfirði. Samkvæmt útboðinu verður vegurinn endurbyggður að mestu leyti í vegstæði núverandi vegar með nokkrum lagfæringum.
Vegurinn liggur um Njarðvíkurskriður á tæplega tveggja kílómetra kafla og þar verða gerðar talsverðar lagfæringar og breytingar á legu vegarins „með umtalsverðum skeringum og fyllingum“ eins og segir í útboðinu. Eins og nafnið bendir til liggur vegurinn um brattar skriður og hlykkjast með djúpum giljum í hlíðinni.
Tilboðum í verkið skal skila fyrir 25. september og er áætlað að framkvæmdir hefjist í haust. Vinnu við skeringar og fyllingar í Njarðvíkurskriðum skal lokið fyrir 15. desember og verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2019.
Heimild: Ruv.is