Á fyrstu sjö mánuðum ársins voru íbúðir í nýbyggingum 18% allra íbúða sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu.
Framboð af nýbyggingum á íbúðamarkaði hefur aukist talsvert það sem af er þessu ári. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu frá Íbúðalánasjóði.
Á fyrstu sjö mánuðum ársins voru íbúðir í nýbyggingum, það er íbúðir með byggingarár skráð í ár eða í fyrra, samtals 18% allra íbúða sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu.
Á sama tíma í fyrra var sambærilegt hlutfall 11% og því hefur nýbyggingum fjölgað umfram aðrar íbúðir í sölu.
Almennt virðist sala á nýjum íbúðum ganga vel en meðalsölutími nýbyggðra íbúða er nú um 20 dögum styttri en fyrir ári síðan.
Ásett fermetraverð í nýbyggingum var að meðaltali um 17% hærra en í öðrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á fyrri helmingi ársins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Mun meiri hækkun húsnæðiskostnaðar á Íslandi en hinum Norðurlöndunum
Á undanförnum þremur árum hefur kaupverð íbúða á Íslandi hækkað um 40% en kostnaður við viðhald og tryggingar vegna húsnæðis hefur hækkað um 13% samkvæmt tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat.
Húsnæðiskostnaður þeirra sem búa í eigin húsnæði hefur því alls hækkað um 30% á þremur árum.
Undanfarin ár hefur húsnæðiskostnaður vegna eigin húsnæðis hækkað mun meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.
Stærsta ástæða þess að húsnæðiskostnaður þeirra sem kaupa húsnæði hefur hækkað meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru miklar hækkanir íbúðaverðs hér á landi, sérstaklega í fyrra.
Konur líklegri en karlar til þess að vera á leigumarkaði
Um 18% landsmanna 18 ára og eldri telja líklegt að þau verði á leigumarkaði eftir hálft ár.
Til samanburðar eru um 16% landsmanna á leigumarkaði og því eru fleiri sem ætla sér að vera á leigumarkaði en eru þar nú þegar.
Konur eru marktækt líklegri en karlar til þess að vera á leigumarkaði en 18% kvenna leigja húsnæði sitt samanborið við 12% karla samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs.
Konur eru einnig marktækt líklegri en karlar til þess að ætla sér að vera á leigumarkaði eftir hálft ár.
Lægstu vextir íbúðalána hafa hækkað
Vextir á íbúðalánum hafa almennt farið lækkandi undanfarin ár en í sumar dró þó til tíðinda þegar lægstu verðtryggðu vextirnir hækkuðu lítillega.
Í byrjun júní voru lægstu verðtryggðu vextir íbúðalána 2,4% en nú eru þeir um 2,5%. Þetta er í fyrsta skipti sem lægstu vextir á verðtryggðum íbúðalánum hækka síðan í mars í fyrra.
Íbúðaskuldir heimilanna vaxa áfram
Íbúðaskuldir heimilanna hafa nú vaxið um 5,3% að raunvirði á undanförnum 12 mánuðum. Þessi hækkunartaktur hefur farið vaxandi að undanförnu og nú er svo komið að íbúðaskuldir hafa ekki vaxið hraðar að raunvirði undanfarinn áratug.
Verðtryggð lán eru um 81% allra íbúðaskulda en óverðtryggð lán um 19%.
Heimild: Vb.is