Home Fréttir Í fréttum Samstarf um „Nýju Reykjavíkurhúsin“

Samstarf um „Nýju Reykjavíkurhúsin“

126
0

Reykjavíkurborg leitar nú eftir samstarfi við byggingarfélög, sjálfseignarstofnanir, húsnæðissamvinnufélög og leigufélög, sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og hafa að markmiði byggingu íbúða fyrir félagsmenn sína.

<>

Verkefnið er hluti af þróunarverkefni sem kallast „Nýju Reykjavíkurhúsin“ og byggir það á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030 og nýrri húsnæðisstefnu borgarinnar sem gera ráð fyrir auknu og fjölbreyttu framboði húsnæðis fyrir ólíka félagshópa.

Samstarf um 180 íbúðir í Vesturbugt og á Kirkjusandi

Samstarfið afmarkast við tvö uppbyggingarsvæði sem eru annars vegar Vesturbugt þar sem áformað er að reisa allt að 80 íbúðir á grundvelli þessa samstarfs og hins vegar Kirkjusand en af þeim byggingarrétti sem Reykjavíkurborg ræður þar yfir er áætlað að um 100 íbúðir verði til ráðstöfunar innan ramma þessa samstarfsverkefnis.

Þegar fjöldi og samsetning samstarfsaðila liggur fyrir er áformað að bjóða lóðirnar út í almennu útboði.

Áhugasöm félög láti vita

Borgarráð fól skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) að halda utan um verkefnið. Félög sem hafa áhuga á samstarfi og uppfylla viðmið eru beðin um að láta vita fyrir 29. maí nk. með tölvupósti á netfangið sea@reykjavik.is  . Þau félög sem vilja kynna sér nánar þær hugmyndir og kröfur sem liggja til grundvallar verkefninu geta fengið sérstaka kynningu hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

Heimild: Reykjavíkurborg