Home Fréttir Í fréttum Þúsundir íbúða í byggingu í Reykjavík

Þúsundir íbúða í byggingu í Reykjavík

176
0
Mynd: Skjáskot af ruv.is
Miklar framkvæmdir standa yfir í Reykjavík um þessar mundir. Þúsundir íbúða eru í byggingu. Tæplega 40% íbúðanna eru félagslegar eða þjónustuíbúðir.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er verið að byggja um 1.400 íbúðir í félagslega kerfinu um þessar mundir, víðs vegar um borgina.

<>

Félagslegar eða þjónustuíbúðir eru í bígerð í Spönginni í Grafarvogi, í Mánatúni, Bólstaðarhlíð, á Sléttuvegi og Skógarvegi, Keilugranda og Grensás, við Suðurlandsbraut og í Árskógum í Breiðholti, auk þess sem hluti íbúða í Úlfarsárdal og Bryggjuhverfi verða félagslegar íbúðir. Þá eru stúdentaíbúðir í smíðum í Vatnsmýri og í Smiðjuholti.

Alls eru minnst 3.700 íbúðir í smíðum, fjögur hótel, framkvæmdir við nýjan Landspítala eru hafnar og til stendur að reisa höfuðstöðvar CCP í Vatnsmýri.

Stefnt er að því að tvöfalda fjölda hótelherbergja í borginni. Við Laugaveg 99 er verið að breyta húsinu, sem áður hýsti innheimtufyrirtækið Motus, í hótel á vegum Center Hotels-keðjunnar. Mikil uppbygging á sér stað á svæðinu frá Hlemmi að Lækjargötu. Á sjötta hundrað íbúðir eru í bígerð í átta mismunandi verkefnum.

Á Hverfisgötu 88-96 er verið að byggja 90 íbúðir. Hinum megin við götuna, á Hverfisgötu 85-93 rísa 70 íbúðir, á Laugavegi 59 er verið að byggja 11 íbúðir, 68 á svokölluðum Frakkastígsreit, 12 á Hverfisgötu 61, 77 íbúðir aftan við verslunina Brynju og 35 á Hljómalindarreit. Flestar nýju íbúðirnar á svæðinu verða á Hafnartorgi, en þar er verið að byggja 178 lúxusíbúðir ásamt verslunum, veitingastöðum og annars konar þjónustu.

Heimild: Ruv.is