Home Fréttir Í fréttum Útilokar ekki að gjaldtaka hefjist að nýju í Hvalfjarðargöngum

Útilokar ekki að gjaldtaka hefjist að nýju í Hvalfjarðargöngum

184
0
Hvalfjarðargöng

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, útilokar ekki að gjaldtaka hefjist að nýju í Hvalfjarðargöngum eftir að henni verður hætt þegar ríkið tekur við rekstri þeirra í september. Óljóst er þó hvenær það gæti orðið. Öll lán verða að fullu greidd í september og göngin afhent ríkinu til eignar. Gjaldtöku verður þá hætt og mun Vegagerðin annast rekstur þeirra, að minnsta kosti til áramóta.

<>

„Stóra málið er þetta: Ríkið ákvað að fara í þetta fyrir 20 árum með sérstakri löggjöf og gjaldtöku og þegar væri búið að greiða upp lánin þá yrði gjaldtökunni hætt. Það erum við að standa við núna,” segir Sigurður Ingi. Hversu lengi frítt verður í göngin er þó óráðið. „Hvað svo sem gerist síðar meir í einhverri framtíð, þegar menn þurfa að tvöfalda Hvalfjarðargöngin eða fara í einhverjar aðrar framkvæmdir, en núna mun þessi gjaldtaka, vegna þessarar framkvæmdar hætta enda búið að greiða hana.”

Þannig verði gjaldfrjáls í göngin um óákveðinn tíma. Hvenær ákvörðun tvöföldun ganganna verður tekin er einnig nokkuð á reiki en kann að skýrast betur þegar samgönguáætlun verður kynnt í haust.
„Það hafa satt best að segja verið aðeins mismunandi skoðanir, áherslur, á hvenær þarf að hefjast handa. Ég hef bara beðið Vegagerðina um að fara vel yfir það og leggja slík minnisblöð fyrir okkur,” segir Sigurður Ingi.

Fyrir liggur að þegar ríkið tekur við göngunum muni starfsfólk Spalar missa vinnuna. „Það er auðvitað gallinn við það að þessu verkefni sé lokið og gjaldtöku hætt að það er auðvitað fólk sem missir vinnuna. Það er reyndar þó þannig að það hefði hvort eð er þurft að fara að breyta um hugbúnað og væntanlega fara í svona beinar myndavélatökur og væntanlega verður gjaldtaka framtíðarinnar byggð á einhverju slíku,” segir Sigurður Ingi.

Heimild: Visir.is