Síðdegis í dag hélt ríkisstjórnin fund með sveitarstjórnarfólki hér í Langaholti á Snæfellsnesi. „Það er á áætlun þessarar ríkisstjórnar að halda reglulega fundi utan höfuðborgarsvæðisins og funda með sveitarstjórnarmönnum og ræða byggðamálin í víðu samhengi.“
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra kynnti tillögur sínar að tilraunaverkefni sem á að styrkja húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. „Þetta tilraunaverkefni felst í því að prófa það í samstarfi við íbúðalánasjóð og með góðum stuðningi og aðstoð frá norska Husbanken að setja upp verkefni sem felst í því að ríkisvaldið með þríhliðasamstarfi komi að því að aðstoða sveitarfélögin með það að ráðast í uppbyggingu á leiguhúsnæði.“
Ásmundur segir að húsnæðismarkaðurinn á landsbyggðinni sé oft þannig að um leið og búið sé að byggja þá verði fasteignaverð lægra en byggingarkostnaðurinn. Að sama skapi sé mikill húsnæðisskortur og þetta setji strik í atvinnuuppbyggingu víða. Aðstoðin frá ríkinu fælist bæði í ráðgjöf og svo með beinu fjármagni þar sem þessi mismunur er jafnaður.
Til að byrja með verði auglýst eftir tveimur til fjórum sveitarfélögum til að fara í verkefnið. „Í framhaldinu munum við skoða með hvaða hætti sé hægt að leiða það í íslensk lög að gera það að almennri reglu og höfum þar góðan stuðning og aðstoð frá Norðmönnum og hyggjumst horfa talsvert mikið í smiðju þeirra.“ segir Ásmundur.
Koma verði í ljós hve mikið fjármagn fari í verkefnið, það ráðist af því hve mikill markaðsbresturinn er og hve mikill kostnaður fer í ráðgjöf til sveitarfélaga.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir verkefnið á byrjunarstigi. „Við höfum hins vegar séð það á undanförnum árum ég gæti nefnt mörg dæmi, ég gæti nefnt Siglufjörð, ég gæti nefnt Húsavík, Fjarðarbyggð og Hérað þar sem í ljós kemur að fasteignamarkaðurinn helst algjörlega í hendur við atvinnulíf, samgöngumál og slíka þætti.
Þannig ég held að til lengri tíma þá ættum við að horfa á tækifærin í samgöngumálum og í atvinnuuppbyggingu sem grundvöll fyrir byggð og þar með fasteignamarkaðinn á viðkomandi svæðum en ekki að byrja á hinum endanum, að reyna að koma lífi í fasteignamarkaðinn til að sjá hvað það geti gert fyrir atvinnulífið.“
Heimild: Ruv.is