Home Fréttir Í fréttum Kaþólikkar safna fyrir kirkju á Selfossi

Kaþólikkar safna fyrir kirkju á Selfossi

144
0

Kaþólikkar á Íslandi safna nú fyrir nýrri kirkju sem þeir hyggjast reisa á Selfossi. Að sögn Denis O‘Leary, sóknarprests í Maríukirkju í Breiðholti, er gert ráð fyrir að um 200 kirkjugestir fái pláss í nýju kirkjunni. Nú eru um tólf þúsund manns skráðir í kaþólska söfnuðinn í Íslandi en vitað er að kaþólikkar hér eru enn fleiri.

<>

„Það hefur fjölgað mikið í kaþólska söfnuðinum á Íslandi, sérstaklega Pólverjum og Filippseyingum. Fjölmargir kaþólikkar hafa einnig komið til Íslands frá Litháen og víðar að. Íslendingum í söfnuðinum hefur einnig fjölgað. Fjölskyldurnar stækka og svo ganga alltaf nokkrir Íslendingar í söfnuðinn á hverju ári,“ greinir O‘Leary frá.

Kaþólsku kirkjunni er skipt niður í sex sóknir og fellur Suðurland undir St. Maríusókn. Að sögn O‘Leary er messað reglulega á Selfossi og í nálægum sveitarfélögum og eru kirkjur þjóðkirkjunnar fengnar að láni til þess.

Fyrstu drög að teikningu nýrrar kirkju eru tilbúin. Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að hefjast handa við framkvæmdir. Það fer eftir því hversu vel gengur að safna. „Þetta hefur gengið fremur hægt. Þetta er kannski ekki besti tíminn svona eftir kreppu. Við þurfum aðstoð utan frá til stórra framkvæmda,“ segir sóknarpresturinn.

Formaður Félags kaþólskra leikmanna, Gunnar Örn Ólafsson, segir hjálparsamtök í Þýskalandi safna peningum fyrir kaþólska söfnuði á Norðurlöndum. „Við höfum fengið styrki frá þeim til viðhalds á byggingum og til að reisa nýjar byggingar.“

Heimild: Vísir.is