Rannsóknarstöðin er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana. Heimamenn annast uppbyggingu og rekstur, en verkefnið er fjármagnað af kínversku heimskautastofnuninni. Fyrsta skóflustunga var tekin 2014 og hefur tækjum vegna norðurljósarannsókna verið komið fyrir. Eftir stendur að klára hátt í 800 fermetra byggingu með aðstöðu fyrir vísindamenn, fyrirlestrasal og gestastofu.
Upphaflega átti að hefja rannsóknir haustið 2016, en því var frestað fram á mitt ár 2017. Þegar þá var komið sögu höfðu framkvæmdir hins vegar verið stöðvaðar, þrátt fyrir að húsið væri langt frá því að vera fullklárað. Gengisþróun hafði verið óhagstæð og framkvæmdakostnaður hækkað verulega. Því þurfti að endursemja um fjármögnun við Kínverjana.
Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Aurora Observatory, sem er sjálfseignarstofnun heimamanna, segir að loks hafi fengist meiri peningur í verkefnið. „Og erum svona að undirbúa það núna að komast af stað í framkvæmdir. Raunar er svo ánægjulegt að fyrsti iðnaðarmaðurinn kom hérna inn í dag til þess að fara að vinna.“
Talið er að byggingarkostnaður verði um 500 milljónir, en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir rúmum 200 milljónum. Þá eru ótaldar um 60 milljónir vegna tengdra framkvæmda, svo sem við vegagerð og tengingar.
„Með þessum nýja samningi eru að koma inn rétt um 380 milljónir sem fara í að greiða það sem eftir er af framkvæmdakostnaði ásamt lánum sem hafa verið tekin á framkvæmdatímanum.“
Næstu skref eru að fylla svæðið af iðnaðarmönnum og klára verkið. „Og við vinnum út frá því vinnuplani núna að það sé hægt að taka stöðina í notkun að fullu í haust.“
Heimild: Ruv.is