Göngustígur var lagður meðfram Drottningarbraut fyrir þremur árum og notað í hann efni sem grafið var út úr Vaðlaheiðargöngum.
Brúin var strax áætluð sem hluti af stígnum, sem göngubrú og staður til afþreyingar.
Verklok í byrjun ágúst
Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, segir að heildarkostnaður við brúarsmíðina sé áætlaður um 84 milljónir króna. Smíðin gangi vel og ætluð verklok séu í byrjun ágúst. „Leikhúsbrú er vinnuheiti og komið til af því að brúin stendur neðan við leikhúsið okkar,“ segir hún.
Skiptar skoðanir um ágæti brúarinnar
En brúin er umdeild. Sumum finnst af henni sjónmengun og þarna sé verið að bruðla með skattfé Akureyringa. Þetta sé í raun „brú yfir ekkert“ og það sé ekki réttlætanlegt að eyða tugum milljóna í slíka framkvæmd. Öðrum finnst brúin falleg og spá því að hún verði mikið aðdráttarafl. Þarna muni fólk staldra við á göngu sinni meðfram Pollinum og brúin verði eitt af kennileitum bæjarins þegar fram líða stundir.
Heimild: Ruv.is