Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir að hefjast við nýjan spítala

Framkvæmdir að hefjast við nýjan spítala

190
0
Nýtt rannsóknarhús Landspítala við Hringbraut verður þar sem bílastæðin eru nú við Læknagarð. Mynd: Nýr Landspítali ohf
Áætlað er að hefja gatnavinnu við nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut í lok júlí. Ásbjörn Jónsson verkefnastjóri segir að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að starfsemi spítalans skerðist ekki, þó að ljóst sé að töluvert ónæði verði af framkvæmdunum.

Opnað var fyrir tilboð hjá Ríkiskaupum vegna framkvæmda við nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut í morgun. Um er að ræða framkvæmdir við jarðvinnu fyrir meðferðarkjarnann, götur, göngustíga, bílastæði og annan lóðafrágang, ásamt fyrirhuguðum bílakjallara. Fjögur tilboð bárust og þar af voru þrjú undir kostnaðaráætlun.

<>

Ásbjörn segir að áætlað sé að framkvæmdir hefjist í lok júlí.  „Svo er þetta nú líka og snýst að því hvernig starfsemi spítalans er, af því að það er mjög mikið álag á spítalanum á haustin, í september, af því að þetta snýr að háskólanum líka, þarna er Læknagarður og kennsla í gangi og þegar allir nemarnir koma inn og það er mikil álag á spítalanum í september, þá viljum við vera farin með þetta af stað, ekki byrja framkvæmdirnar þá, þannig að því fyrr því betra.“

Hafa gert allt til að takmarka ónæði

Við framkvæmdirnar sem nú eiga að hefjast verður gamla Hringbrautin svokallaða fjarlægð enda er áætlunin að byggja nýja spítalann alveg niður að nýju Hringbrautinni.  Ljóst er að framkvæmdirnar munu hafa töluverð áhrif á nærliggjandi umferð. „Auðvitað breytir það þá umferðarflæðinu þar en umferðarþunginn á gömlu Hringbrautinni er ekki mjög mikill, þannig það er ekkert rosalega mikið umferðarálag sem er að færast af svæðinu yfir á önnur svæði út af framkvæmdinni.“ segir Ásbjörn.

Ásbjörn segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að starfsemi spítalans muni ekki skerðast þótt vissulegt ónæði verði af framkvæmdunum. Passað verði upp á bílastæðafjölda og gríðarlega harðar öryggiskröfur verða settar. „Það eru allar hljóðvarnir fyrirskrifaðar sem hægt er að fyrirskrifa, mjög strangar hljóðkröfur á öllu og það er í raun og veru allt gert til að milda áhrifin.“

Heimild: Ruv.is