Home Fréttir Í fréttum Reykjanesbæingar krefjast kosningar um stóriðju í Helguvík

Reykjanesbæingar krefjast kosningar um stóriðju í Helguvík

91
0
Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Íbúahópur gegn frekari stóriðju í Helguvík ásamt Hestamannafélaginu Mána hvöttu bæjarbúa Reykjanesbæjar til þátttöku í kröfugöngu sem hófst klukkan hálfsex í kvöld. Hópurinn vill að ný kísilmálmverksmiðja Thorsil fái ekki að rísa í Helguvík.

<>

Á annað hundrað, bæði menn og hestar, tóku þátt í göngunni frá smábátahöfninni í átt að ráðhúsinu. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, tók þar við kröfum þeirra.

„Ég er bara ánægður að íbúar skuli hafa skoðun og koma því á framfæri sem þeir eru að hugsa,“ segir Friðjón. „Það er ekki oft sem það gerist. Við munum taka tillit til þessa í umræðunni. Ég er ekki tilbúinn að segja hér og nú hvað verður en ég mun kynna þetta mál inni í bæjarstjórn, það er ljóst.“

„Við viljum bara íbúalýðræði í bænum og við viljum að íbúar fái að koma að ákvarðanatöku í svona stóru máli,“ segir Guðmundur Auðun Gunnarsson, íbúi í Reykjanesbæ.

Gunnar Eyjólfsson, formaður Mána, segir hestamenn í félaginu eðlilega hafa miklar áhyggjur af fyrirhugaðri byggingu versins vegna staðsetningar þess.

„Við erum innan við kílómeter frá kísilverinu,“ segir Gunnar. „Þarna eru um fimmtíu hesthús, fjögur hundruð hestar á húsi og svo er búið að rækta þarna upp 120 hektara land sem við beitum á sumrin síðustu fjörutíu árin.“

Heimild: Vísir.is