Home Fréttir Í fréttum „Verðlagseftirlit á villigötum“

„Verðlagseftirlit á villigötum“

59
0

Nýleg verðkönnun ASÍ hjá byggingavöruverslunum hefur vakið hörð viðbrögð. Í könnunni kom fram að afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts hafi í meirihluta tilvika ekki skilað sér í lægra verði til neytenda, eins og greint var frá í frétt DV í gær. Í kjölfar þess að niðurstöður verðlagseftirlitsins voru kynntar á vef ASÍ sendu Samtök verslunar og þjónustu frá sér fréttatilkynningu þar sem framkvæmd verðathugunarinnar var gagnrýnd í þremur liðum.

<>

Verðlækkanir þegar komnar fram

Í stuttu máli segir SVÞ að í mörgum tilfellum hafi fjölmargar verslanir þegar lækkað verð í september þegar fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar hafi verið lagt fram. ASÍ hafi gert verðkönnun sína í október og því gefur sú könnun ekki rétta mynd af verðþróun þessara vara. Einnig sé ekki tekið tillit til veltuhraða vara sem í sumum tilfellum er meira en heilt ár, áhrifin af afnámi vörugjalda eigi því eftir að koma fram í þessum vörum. Þriðja athugasemd SVÞ snýr að gengisþróun en gengi ýmissa gjaldmiðla hefur hækkað verulega frá áramótum og það dragi úr áhrifum afnáms vörugjalda.

Fréttatilkynninguna í heild sinni:

Verðlagseftirlit ASÍ hefur nú birt verðkannanir sínar á rafmagnstækjum og byggingavörum , vörum sem áður báru vörugjöld en sem kunnugt er féllu vörugjöld af algengum rafmagnstækjum og fjölmörgum byggingavörum niður um s.l. áramót. Jafnframt lækkaði virðiaukaskattur af þessum vörum úr 25,5% í 24%.

Í gegn um tíðina hafa Samtök verslunar og þjónustu gagnrýnt þau óvönduðu vinnubrögð sem ASÍ viðhefur gjarnan við gerð verðkannana. ASÍ hefur hins vegar tekið öllum ábendingum samtakanna um bætt vinnubrögð fálega og staðhæft að allar verðkannanir þeirra séu unnar af fagmennsku. Þessar nýjustu verðkannanir ASÍ falla þó klárlega í hóp með þeim sem bera vott um litla fagmennsku og lítinn vilja til að upplýsa neytendur um staðreyndir máls.

Skýrt dæmi um óvönduð vinnubrögð ASÍ er viljaleysi þeirra til upplýsa til hvaða vara nákvæmlega verðkönnunin tekur, sem gerir það útilokað fyrir þau fyrirtæki sem hlut eiga að máli að bera hönd yfir höfuð sér og svara með nákvæmni verðþróun einstakra vara. Þetta gerir ASÍ hins vegar mögulegt að kasta fram almennum fullyrðingum um hvernig verð hafa þróast og gera oft ekki annað en að gefa neytendum villandi og jafnvel rangar upplýsingar. Læðist óneitanlega að manni sá grunur að hér sé það tilgangurinn sem helgar meðalið.

Samtök verslunar og þjónustu vilja í tilefni af þessu benda á eftirfarandi staðreyndir:

1. Fljótlega eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram þann þann 9. september 2014, þar sem lagt var til afnám almennra vörugjalda um áramótin, lækkuðu fjölmargar verslanir verð á stórun hluta þeirra rafmagnstækja og byggingavara sem báru vörugjöld. Lækkun á verði þessara vara hefur því í mörgum tilfellum verið komin fram þegar ASÍ gerir verðkönnun sína í október. Samanburður á verði í október annars vegar og í apríl hins vegar gefur því alls ekki rétta mynd af verðþróun þessara vara. Einhverra hluta vegna sá ASÍ ekki ástæðu til að greina frá þessu.

2. Veltuhraði þeirra vara sem hér um ræðir er mjög misjafn. Í sumum tilfellum er veltuhraðinn 1 til 1,5 á ári sem þýðir að varan er í versluninni í heilt ár áður en hún selst. Það má hverjum manni ljóst vera að áhrif niðurfellingar vörugjalda af slíkum vörum er ekki komin fram að fullu þremur til fjórum mánuðum eftir að afnám vörugjalda tók gildi. Einhverra hluta vegna sá ASÍ ekki ástæðu til að greina frá þessu.

3. Stór hluti þeirra vara sem hér um ræðir eru keyptar inn í bandarískum dollurum eða verðlagðar í þeim gjaldmiðli af birgjum íslenskra fyrirtækja. Aðeins frá áramótum til apríl s.l. styrktist gengi dollars um 12,5% og gengi norskrar krónu um 3,9%. Algengar verðhækkanir (óháð gengisþróun) frá erlendum birgjum eru 3 – 5% á sama tíma. Þessi óhagstæða þróun dregur því óhjákvæmilega úr áhrifum afnáms vörugjaldanna.

Afnám vörugjalda hefur verið eitt helsta baráttumál Samtaka verslunar og þjónustu undanfarin ár. Það var mikið fagnaðarefni fyrir samtökin og aðildarfyrirtæki þeirra þegar sigur vannst í því baráttumáli. Samtökin eru þess fullviss að fyrirtækin hafa lagt sig fram um að skila áhrifum skattkerfisbreytinganna til almennings, enda fara hér saman hagsmunir atvinnulífs og almennings. Neikvæð og villandi umræða um svo mikilvæg mál er alvarleg og til þess fallin að kasta rýrð á vinnu samtakanna við að einfalda og bæta skattkerfið í landinu, almenningi til hagsbóta. Í því mikilvæga verki ætti ASÍ að vera okkar helsti bandamaður.

Heimild: DV.is