Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast við Vök á Urriðavatni á Héraði

Framkvæmdir hefjast við Vök á Urriðavatni á Héraði

179
0
Mynd: Skjáskot af Rúv.is
Miklar framkvæmdir eru nú að hefjast við Urriðavatn á Héraði skammt frá Egilsstöðum. Þar var í gær tekin fyrsta skóflustungan að nýjum baðstað sem nefnist Vök. Við vatnið mun rísa þúsund fermetra bygging og 500 fermetra laugasvæði sem liggja út í vatnið. Heildarkostnaður verður hátt í milljarður króna.
Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki á rúmu einu ári og að hægt verði að opna í júní næsta sumar.

Úr tilkynningu:

<>

„Guðmundur Davíðsson, hitaveitustjóri Egilsstaða og Fella, fékk þann heiður að setjast upp í gröfu og taka fyrstu skóflustunguna. Guðmundur fékk fyrstur hugmyndina að verkefninu árið 1999 sem þá var hugsuð sem ókeypis afþreying fyrir heimamenn og kostnaður metinn á um 50 milljónir.

Nú tuttugu árum síðar hefur hugmyndin þróast töluvert.  Fjárfestingin er metin á tæpan milljarð og verkefninu ætlað að verða helsti segull Austurlands fyrir ferðamenn en gert er ráð fyrir að um 50.000 manns heimsæki baðstaðinn fyrsta heila starfsárið.

Heitið á verkefninu er sótt í vakir sem mynduðust á Urriðavatni þegar vatnið lagði á veturna.  Vakirnar urðu tilefni í þjóðsögur og seinna ástæða þess að borað var eftir heitu vatni í Urriðavatni með góðum árangri.  Heita vatnið sem fannst er ekki eingöngu nýtanlegt til upphitunar á byggðinni í kring heldur er það svo tært að vottun hefur fengist fyrir það sem eina drykkjarhæfa heita vatnið á Íslandi.

Rauði þráðurinn í verkefninu, þegar kemur að upplifun og hönnun, er þar af leiðandi þetta tæra heita vatn. Upplifunin sem VÖK hyggst bjóða upp á verður því ekki eingöngu að hægt verði að baða sig í endurgerðum vökum í náttúrufegurðinni sem umlykur Urriðavatn heldur einnig í formi veitinga sem unnar eru úr þessu hreina heita vatni.

Fjárfestingahópurinn samanstendur aðallega af Jarðböðunum og heimamönnum en stjórn félagsins skipa Steingrímur Birgisson sem einnig er stjórnarformaður Jarðabaðanna í Mývatnssveit, Grímur Sæmundssen forstjóri Bláa lónsins og heimamennirnir Hilmar Gunnlaugsson, Ívar Ingimarsson og Magnús Ásmundsson.  Framkvæmdastjóri verkefnisins er Heiður Vigfúsdóttir.“

Heimild: Ruv.is