Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Hafnarfjörður skrifar undir verksamning um byggingu almennra leiguíbúða í Skarðshlíð

Hafnarfjörður skrifar undir verksamning um byggingu almennra leiguíbúða í Skarðshlíð

602
0
Mynd: Hafnarfjodur.is

Bæjarstjóri fyrir hönd Skarðshlíð íbúðafélag hses. og framkvæmdastjóri Modulus eignarhaldsfélags skrifuðu á dögunum undir verksamning um byggingu almennra leiguíbúða í Skarðshlíð.

<>

Til stendur að byggja 12 íbúðir á lóðunum Hádegisskarð 12 og 16 í Skarðshlíð samkvæmt útboðslýsingu og á að skila þeim fullbúnum. Um er að ræða 6 tveggja herbergja 50 m2 íbúðir, 4 þriggja herbergja 60 m2 íbúðir og 2 fjögurra herbergja 80 m2 íbúðir, sex íbúðir á hvorri lóð.

Hafnarfjarðarbær hefur stofnað sjálfseignarstofnun sem byggir á lögum um almennar leiguíbúðir sem leigjendurnir sjálfir koma til með að stjórna en bæjarfélagið mun eiga aðild að.

Byggingarkostnaður húsnæðisins er 307,9 milljónir króna, Íbúðalánasjóður hefur samþykkt stofnstyrk uppá 50 milljónir króna og Hafnarfjarðarbær 36,9 milljónir.

Húsaleiga mun standa undir afborgunum af lánum, fjáramagnsgjöldum og rekstrarkostnaði húsnæðisins en vera heldur lægri en gengur og gerist þar sem eingöngu þarf að taka lán fyrir 70% af byggingarkostnaði. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í sumar.

Ljóst er að leiguverð verður nokkuð lægra en á almennum markaði. Til dæmis mun 50 m2 íbúð koma til með að leigjast á um 106.500 krónur og í einhverjum tilfellum kunna íbúar að eiga rétt á húsaleigubótum.

Unnið er að gerð úthlutunarreglna en gert ráð fyrir að leigjendur þurfi að uppfylla skilyrði um tekjumörk, eiga lögheimili í Hafnarfirði og vera eldri en 18 ára þegar sótt er um. Aðkoma bæjarins að rekstri félagsins snýr eingöngu að úthlutun á leigurétti s.s. þegar einhver vill flytja út. Leiguréttur er ekki framseljanlegur heldur þarf að skila leigurétti til bæjarins sem tekur ákvörðun um nýja leigjendur. Leigjendur hafa þó forgang á leigu vilji þeir stækka eða minnka við sig húsnæði eftir fjölskylduaðstæðum hverju sinni.

„Ég hvet fólk til þess að skoða þennan möguleika vel því ég tel að hér sé svarið við þeim miklu erfiðleikum sem við erum að glíma við á leigumarkaðnum í dag. Hér er að opnast möguleiki fyrir fólk að taka sig saman, stofna sjálfseignarstofnun og sækja um stofnstyrki og fara þessa leið, og fá varanlegt leiguhúsnæði á mun betra verði en markaðurinn býður upp á í dag,“ sagði Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri þegar samningur við verktakann var undirritaður og hrósaði Íbúðalánasjóði fyrir að standa vel að þessu máli, s.s. gott samstarf og með því að útbúa vönduð reiknilíkön.

Stofnað hefur verið samskonar félag utan um byggingu og rekstur á íbúðakjarna fyrir fatlað fólk við Arnarhraun og er útboð í gangi varðandi framkvæmdir.

Heimild: Hafnarfjordur.is