Home Fréttir Í fréttum Unnið að stækkun íþróttahússins í Þorlákshöfn

Unnið að stækkun íþróttahússins í Þorlákshöfn

265
0
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri, tekur fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni. Mynd: Sunnlenska.is

Vinna er hafin við stækkun íþróttahússins í Þorlákshöfn en til stendur að stækka grunnflöt hússins um 630 fermetra eða liðlega 40%.

<>

Það eru Trésmíðar Sæmundar ehf. og Garpar ehf. sem munu vinna verkið og voru það fulltrúar frá þeim ásamt Gunnsteini Ómarssyni bæjarstjóra sem undirrituðu samningana um leið og Gunnsteinn tók fyrstu skóflustunguna í apríl.

Í þessari framkvæmd verður sett ný klæðning utan á allt húsið, en sú gamla er farin að láta á sjá. Þá verður sett í húsið allt loftræstikerfi og endurnýjuð lýsing.

„Það er alveg ljóst að þetta verður veruleg aðstöðubót fyrir íþróttaiðkun í Þorlákshöfn enda þátttaka í íþróttum mjög góð hjá okkur. Tími iðkenda og þjálfara mun einnig nýtast mun betur þar sem búnaðurinn verður fastur að mestu leyti og því þarf ekki stilla upp fyrir æfingar og ganga frá að þeim loknum,“ sagði Gunnsteinn í samtali við sunnlenska.is.

Í nýja hluta hússins verður aðstaða fyrir hópfimleika, dansgólf, púðagryfja, stillanleg gryfja og trampólín.

Áætlaður kostnaður við bygginguna er 220 milljónir króna. Búið er að grafa fyrir byggingunni og vinna við sökkla er hafin.

„Upphafleg áform voru þau að taka húsið í gagnið fyrir Unglingalandsmótið í sumar en það mun því miður ekki nást. Vonir standa til að hægt verið að taka húsið í gagnið á haustmánuðum og ættu línur að skýrast á allra næstu vikum,“ bætti Gunnsteinn við.

Um leið og samningar um viðbygginguna voru undirritaðir var gerður samningur við Garpa ehf. um gerð nýrra heitra potta við sundlaugina. En vinna við þá er hafin og áætlað er að þeir verði tilbúnir til notkunar í sumarlok.

Heimild: Sunnlenska.is