
Ný sundhöll, sem Íslendingar hönnuðu frá grunni í útjaðri Oslóborgar, hefur verið valin bygging ársins í Noregi. Byggingin þykir leggja ný viðmið í orkunotkun og vistvænni hönnun. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2.
Þeir hjá verkfræðistofunni Verkís eru raunar svo montnir af byggingunni að þeir héldu sérstaka ráðstefnu um hana í dag í húsakynnum sínum við Ofanleiti í Reykjavík. Þar var gestum boðið að ganga inn í sýndarheim og skoða mannvirkið að utan sem innan.

„Þetta er íslensk hönnun frá A til Ö,“ segir Eiríkur Steinn Búason, verkfræðingur hjá Verkís.
Sundhöllin reis í bænum Holmen í Asker-fylki á vinsælu útivistarsvæði við innanverðan Oslóarfjörð.
„Það gerði þá kröfur á okkur sem arkitekta að við myndum finna lausnir til þess að gefa til baka ekki minna en það sem tekið var frá svæðinu,“ segir Aðalsteinn Snorrason, arkitekt hjá ARKÍS.

Það var meðal annars gert með því að hafa þak byggingarinnar sem grænt svæði opið almenningi.
„Þar er græn grasflöt sem hallar á móti suðri og gefur gríðarlegt útsýni yfir Oslóarfjörðinn,“ segir Aðalsteinn.

Þá þykir orkuöflun fyrir sundhöllina til fyrirmyndar. Orkan verður til á staðnum í gegnum sólarsellur og varmadælur með fimmtán orkubrunnum á lóðinni sem ná niður á 200 metra dýpi.
„Þarna erum við með sólfangara í bílastæðum. Við erum með sólarsellur, 650 fermetra, á byggingunni. Og síðan er mikið lagt upp úr varmaendurvinnslu inni í byggingunni sjálfri,“ segir Eiríkur.

Svo hrifnir eru Norðmenn að þeir völdu sundhöllina sem byggingu ársins 2017 í Noregi.
„Þetta er ekki bara sem arkitektúr, – þetta er líka gríðarlega tæknilega flókið verkefni,“ segir Aðalsteinn.
„Þetta er náttúrlega gríðarleg viðurkenning og kannski stökkpallur fyrir það teymi sem að þessu kom, fyrir framtíðarverkefni,“ segir Eiríkur.

Sundhöllin kostaði 3,6 milljarða íslenskra króna.
Heimild: visir.is