Home Fréttir Í fréttum Milljarða framkvæmdir á Akranesi í pípunum

Milljarða framkvæmdir á Akranesi í pípunum

413
0
Mynd: ASK Arkitektar - RÚV
Fyrirtækið Uppbygging ehf. hyggst reisa allt að 17 þúsund fermetra húsnæði á Akranesi undir ýmis konar atvinnustarfsemi. Tillögur hafa verið kynntar bæjaryfirvöldum og er áætlað að framkvæmdin kosti um fimm milljarða króna. Eigandi fyrirtækisins vonast til þess að framkvæmdir hefjist í lok þessa árs.

Í Skessuhorni í dag kemur fram að fyrirtækið hafi keypt um tveggja hektara land við Smiðjuvelli á Akranesi, þar sem er áætlað að byggja. Gert er ráð fyrir að reisa sex til átta byggingar á svæðinu, sem myndi umgjörð um 200-250 bílastæði. Áætlað er að framkvæmdin í heild kosti um fimm milljarða króna og taki um fimm ár, að því er fram kemur í Skessuhorni.

<>

Margir sem hafi áhuga á verkefninu

Engilbert Runólfsson, eigandi Uppbyggingar, segir að á væntanlegum byggingarreit hafi verið gömul garðyrkjustöð. „Við köllum þetta Smiðjuvallareit, þetta er andlit bæjarins þegar þú kemur inn í bæinn,“ segir Engilbert í samtali við RÚV. Hann segir að markmiðið sé að byggja svokallaða „fyrirtækjagarða“. Á svæðinu verði skristofuhúsnæði, verslun og blönduð þjónusta, sérhæfðar geymslur meðal annars. „Það hefur ekki neitt í líkingu við þetta verið í boði á Akranesi. Það er fjöldinn allur af aðilum sem hafa lýst yfir áhuga á þessu svæði, bæði á Akranesi og eins aðilar úr Reykjavík,” segir hann.

Jákvæð viðbrögð frá yfirvöldum

Búið er að kynna bæjaryfirvöldum tillögurnar. „Málið var kynnt fyrir bæjarstjórn og umhverfis- og skipulagsnefnd í gærkvöldi. Við teljum okkur hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð,“ segir Engilbert. Næstu skref séu að breyta deiliskipulagi og reiknar Engilbert með að skipulagsferlið taki sex til átta mánuði. Ef allt gangi að óskum geti framkvæmdir hafist fyrir lok þessa árs.

Heimild: Ruv.is