
Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustunga að þúsund fermetra þjónustumiðstöð í Borgarnesi þar sem fyrirhugað er að verði til húsa verslanir og veitingahús. Húsið verður reist á lóðinni Digranesgötu 4, á milli húsa Bónuss og Arionbanka næst þjóðveginum þegar ekið er inn í bæinn að sunnan.
Það er Borgarland ehf. sem byggir með tilstyrk Kaupfélags Borgarfirðinga en kaupfélagið á eins og kunnugt er allt hlutafé í fyrirtækinu. Í máli Guðsteins Einarssonar kaupfélagsstjóra og framkvæmdastjóra Borgarlands kom fram að þetta verkefni markaði tímamót því það verður fyrsta stóra framkvæmdin sem félögin ráðast í eftir hrun.
Húsin á lóðinni verða tvö. Í þessum fyrri áfanga verður stærra húsið byggt, en það verður rúmir þúsund fermetrar.
Seinna húsið verður um 700 fermetrar. Lóðaframvæmdir fara þó fram í þessum áfanga vegna beggja húsanna.
Heimild: Skessuhorn.is