Home Fréttir Í fréttum Tilboð í nýbyggingu fyrir Byggðastofnun

Tilboð í nýbyggingu fyrir Byggðastofnun

389
0
Nýbygging Byggðastofnnar

Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Byggðastofnunar hefur auglýst eftir tilboðum í verkið „Byggðastofnun – nýbygging“ , Sauðármýri 2, Sauðárkróki. Um er að ræða jarðvinnu, uppsteypu og fullbúið hús og allan frágang að utan og innan, ásamt lóð. Byggingin er 998 m² á tveimur hæðum og með kjallara undir hluta hússins.

<>

Verkefnið hefur verið unnið samkvæmt aðferðarfræði upplýsingalíkana mannvirkja (Building Information Modeling – BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM. Verkinu skal vera að fullu lokið 30. september 2019.

Að sögn Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra Byggðastofnunar, mun nýtt húsnæði stórbæta aðstöðu hennar til að sinna hlutverki sínu og verður í reynd bylting að því er varðar vinnuaðstöðu starfsmanna.  „Lögð er áhersla á að húsnæðið sé allt bjart og fallegt, að efniviður sé sem náttúrulegastur og að loftgæði, hljóðvist og umferð öll sé með sem þægilegasta móti.

Vinnuaðstaða starfsmanna verður að langmestu leyti í opnum rýmum, en þó þannig að hvert starfssvið hefur sitt vinnusvæði.“ Aðalsteinn segir að ákvörðunin um að byggja eigið húsnæði fyrir stofnunina á Sauðárkróki eigi sér langan aðdraganda og var ekki auðsótt mál. Segir hann marga hafa lagt þar hönd á plóg. Nánar verður rætt við Aðalstein í næsta Feyki.

Útboðsgögn voru gerð aðgengileg á vef Ríkiskaupa í gær, 2. maí. Tilboðin verða opnuð hjá Ríkiskaupum, þriðjudaginn 15. maí  kl.11:00 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Heimild: Feykir.is