Skóflustunga að Hjálparmiðstöð Hjálpræðishersins var tekin í gær, án þess að fulltrúar frá meirihlutanum í borgarstjórn mættu.
kóflustunga var tekin að nýjum Herkastala, þar sem Hjálparmiðstöð og trúarsamkomur Hjálpræðishersins munu fara fram, í dag í Sogamýrinni. Trúfélagið, stefnir að því að geta tekið húsnæðið, sem staðsett verður við Suðurlandsbraut 72 til 74, næst innst í Mörkinni, í notkun eftir tvö ár, en þá fagnar herinn einmitt 125 ára starfsemi á Íslandi.
Húsnæðið kostar 100 milljonum meira í byggingu en trúfélagið fékk fyrir sölu gamla Herkastalans í Aðalstræti, sem samtökin greiddu að fullu fyrir, þegar var byggður fyrir meira en öld.
Fjölmenni mætti við athöfnina, þar sem skólalúðrasveit spilaði nokkur lög og gestir sungu tvo kristna sálma, þar með talið Áfram kristmenn krossmenn í þýðingu Séra Friðriks Friðrikssonar stofnanda KFUM, sem og beðið var fyrir starfseminni og að nýja staðsetningin yrði starfinu til blessunar.
Enginn fulltrúi frá meirihlutanum í borginni
Ásamt meðlimum og velunnurum, til að mynda forystufólki í öðrum frjálsum kirkjum á Íslandi, mátti sjá þónokkra fulltrúa frá stjórnmálaflokkum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í borginni, það er frá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki, Borginni okkar – Reykjavík og Höfuðborgarlistanum, en engan frá flokkunum sem mynda meirihluta í borginni nú.
Tveir sitjandi borgarfulltrúar, þau Kjartan Magnússon frá Sjálfstæðisflokki, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sem nú býður sig fram undir merkjum Borgarinnar okkar – Reykjavík, voru meðal þeirra sem komu til að fagna áfanganum, auk Eyþórs Arnalds oddvita og borgarstjórnarefnis Sjálfstæðismanna.
Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Pírata ítrekað hafnað að sama gildi fyrir þetta trúfélag og fyrir annað sem þarna hefur fengið úthlutað lóð við hliðina, en það fékk öll gjöld til borgarinnar niðurfelld.
Herinn farinn að venjast mismunun
Kolbjörn Örsnes, deildarstjóri Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum, tók skóflustunguna, en hann sagði í samtali við Viðskiptablaðið að honum þyki sorglegt að borgarstjórn mismuni á þennan hátt milli trúfélaganna.
„En við erum farin að venjast þessu, þetta hefur verið í umræðunni alveg síðan ég kom til landsins,” sagði Kolbjörn, en hann segir að herinn hafi alla tíð þurft að greiða fullt verð fyrir allar lóðir og framkvæmdir sem félagið hefur staðið í, en annað hefur gilt um önnur trúfélög, þá sérstaklega Þjóðkirkjuna.
„Áætlaður kostnaður við nýja Herkastalann eru 735 milljónir, sem er meira en við seldum gamla kastalann á. En við ætlum okkar einnig að selja húsnæði okkar í Garðastræti, þar sem við höfum nú höfuðstöðvar starfsemi okkar og íbúðir. Vonandi getum við svo keypt íbúðir einhvers staðar annars staðar og safnað auknu fé til að greiða fyrir þessar framkvæmdir.”
100 milljóna mismunur frá söluverðinu
Viðskiptablaðið greindi frá því á sínum tíma þegar Hjálpræðisherinn seldi gamla Herkastalann við Aðalstræti á 635 milljónir króna.
„Við keyptum hann árið 1895, en þá var þar minna hús. Árið 1915 rifum við það, og byggðum kastalann eins og hann stendur þar nú,” sagði Kolbjörn sem er spenntur fyrir þeim möguleikum sem nýja aðstaðan býður upp á.
„Við höfum nú starfað á Íslandi í 123 ár, við að hjálpa þeim fátæku. Lengi framan af rákum við einnig gestahús á Ísafirði, Siglufirði og Akureyri, sem voru sérstaklega ætluð sjómönnum og sem stuðningur fyrir þá sem glíma við fátækt, líkt og hefur verið rauður þráður í starfsemi Hjálpræðishersins frá byrjun. Hér í nýja húsinu verður svo salur fyrir trúarsamkomur, verslun fyrir notaðar vörur, Hertex, og svo verður hjálparmiðstöð, þar sem fólk getur komið og fengið föt, mat og hjálp fyrir það sem það þarfnast og er að glíma við í sínu persónulega lífi. Loks vonumst við til þess að geta boðið upp á kaffi og súpur fyrir íbúa nágrennisins sem og geta boðið þeim sem eru í þörf upp á það frítt.”
Enn tafir vegna seinagangs hjá borginni
Kolbjörn segir að vonast hafi verið eftir því að geta hafið framkvæmdir strax í komandi viku, en enn þurfi að bíða nokkuð eftir leyfum frá borgaryfirvöldum sem hafi tafist. „Við gætum þurft að bíða í tvær vikur áður en framkvæmdir geta hafist, en við erum að bíða eftir því að vita hvar við getum sett jarðefnið sem fellur til af framkvæmdunum og annað slíkt.”
Þess má geta að enn eru engar framkvæmdir hafnar á lóðinni við hliðina þar sem Félag Múslima á Íslandi fékk ókeypis lóð og niðurfelld gatnagerðargjöld fyrir byggingu mosku, en um er að ræða stórt svæði sem afmarkast af áberandi stað þar sem rampurinn frá Sæbraut liggur inn á Miklabraut, og mun húsnæðið sem þar rís blasa við öllum vegfarendum inn í borgina úr Ártúnsbrekkunni.
Heimild: Vb.is