Home Fréttir Í fréttum Auglýsa útboð fyrir 66.000 fm meðferðarkjarna

Auglýsa útboð fyrir 66.000 fm meðferðarkjarna

226
0
Mynd: Ruv..is
Auglýsa á útboð vegna framkvæmda við nýjan Landspítala við Hringbraut í dag. Hefja á byggingu 66 þúsund fermetra húss sem á að nýta sem meðferðarkjarna. Verktíminn er 20 mánuðir. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs landspítala, segir að verkefnið sé umdeilt eins og fleiri stór verkefni.

Gunnar segir að það séu miklar deilur um byggingu spítalans. Átta ríkisstjórnir hafi fjallað um þetta verkefni frá aldamótum og hátt í 400 þingmenn. Aldrei hafi aldrei verið greidd atkvæði á móti því. Settar hafi verið sérstakar fjárveitingar inn í verkefnið og í nýlegri fjármálaáætlun sé verið að fleyta þessu verkefni áfram. „Við erum komin á þann stað að við erum að auglýsa eftir jarðvinnuverktökum sem geta tekið það að sér að vinna jarðvinnuna fyrir meðferðarkjarnann, sem er stærsta húsið, um 66 þúsund fermetrar,“ segir Gunnar Svavarsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

<>

Við Hringbraut á einnig að rísa nýtt sjúkrahótel, rannsóknarhús, bílastæði, tækni- og skrifstofuhús. Samkvæmt fréttatilkynningu er stefnt að því að byggingu spítalans verði lokið 2024. Tilboð verða opnuð hjá Ríkiskaupum 6. júní.

Tafir vegna fjárveitinga

Gunnar segir að fjárveitingar séu aðalástæðan fyrir því að framkvæmdir við nýjan Landspítala hafi tafist. Hann segir eðlilegt að stór verkefni eins og þetta taki langan tíma í umræðu. „Það hafa verið önnur verkefni sem Alþingi hafa þótt vera meira virði og forgangsraðað. En við vitum líka að um tíma voru mjög takmarkaðir fjármunir til fjárfestinga hér á landi af hálfu ríkisins þannig verkefnið var dregið til baka.“

Bygging nýs Landspítala var endurmetin stuttu eftir hrun og Gunnar bendir á að þá hafi verið ákveðið að nýta byggingarnar sem eru fyrir og endurgera þær eftir því sem þörf krefur. Mikil hagræðig sé af því að nýta byggingar sem nú hýsa spítalann við Hringbraut. „Það er gríðarleg samlegð fólgin í því að flytja starfsemi Landspítalans, sem er á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í hátt í 100 húsum, á einn stað og ná samlegðinni við Háskóla Íslands og heilbrigðisvísindasvið.“

Umdeild framkvæmd

Gunnar segir að það sé eðlilegt að fólk hafi skoðanir á nýbyggingunni. Verkefnið sé umdeilt eins og flest önnur stór verkefni á vegum sveitarfélaga og ríkis. Hann nefnir sem dæmi Kárahnjúkavirkjun og Hvalfjarðargöng. Hann segir að það skipt ekki svo miklu máli fyrir þá sem vinna verkið hvort fólk sé mótfallið því eður ei. „Við hlustum á þær ánægju- og óánægjuraddir sem berast inn í verkefnið. Við notum það sem hægt er að nota. Þetta byggir miklu frekar á því að nota klínísku upplýsingarnar og fylgja eftir því sem þingið eða ríkisstjórnir hvers tíma ætla að fara fram með,“ segir Gunnar.

Heimild: Ruv.is