Home Fréttir Í fréttum Bygging 930 íbúða er fyrirhuguð í Vogum á Vatnsleysuströnd á næstu árum

Bygging 930 íbúða er fyrirhuguð í Vogum á Vatnsleysuströnd á næstu árum

503
0
Bygging 930 íbúða er fyrirhuguð í Vogum á Vatnsleysuströnd á næstu árum. Verði af áformunum þrefaldast íbúafjöldinn í sveitarfélaginu.

Tæplega 1.200 manns búa í Vogum á Vatnsleysuströnd samkvæmt vef Hagstofunnar. Bæjarstjórinn segir að íbúum hafi fjölgað að undanförnu.

<>

„Það eru liðlega 400 íbúðir í sveitarfélaginu alls núna og mestur fjöldinn býr hér í Vogum en svo eru auðvitað nokkrir íbúar, nokkrir tugir eða rúmlega 100 íbúar hér inn á Vatnsleysuströnd,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum.

Aukin eftirspurn hafi verið eftir starfsfólki og húsnæði á Suðurnesjum. „Þannig að sveitarfélagið réðst í heilmikla gatnagerð á síðasta ári og því verki lýkur í ár og það er að hefjast það uppbygging á 150 íbúðahverfi og síðan eru áform frá einkaaðilum sem að hafa nýlega fest hér kaup á landi í jaðri byggðarinnar að byggja hér upp mörg hundruð íbúðir á næstu 10 árum,“ segir Ásgeir.

Stefnt er að því að nýja hverfið rísi við hliðina á fótboltavellinum og liggi til norðurs með Vatnsleysuströndinni. Byggja á allt að 780 íbúðir.

„Það mun þýða að íbúafjöldinn hér og íbúðafjöldinn mun svona ca þrefaldast,“ segir Ásgeir.

Hann segir að félagið hafi enn ekki verið stofnað. „Og er ekki held ég komið nafn á það svo ég viti til en þetta eru sem sagt fjárfestar og aðilar innan byggingageirans sem standa að þessu,“ segir Ásgeir.

Innlendir þá eða? „Já, þetta eru allt innlendir aðilar,“ segir Ásgeir.

Núna sé unnið að breytingu á deiliskipulagi. „Ég geri ráð fyrir því að uppbyggingin muni hefjast eigi síðar en á næsta ári og þeir hafa talað um að gera þetta í svona áföngum næstu 10 árin,“ segir Ásgeir.

Heimild: Ruv.is