Home Fréttir Í fréttum Mikið byggt á Hvammstanga eftir langt hlé

Mikið byggt á Hvammstanga eftir langt hlé

163
0
Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Húsbyggingar eru hafnar af krafti á Hvammstanga, eftir langt hlé. 18 lóðum hefur verið úthlutað þar á einu ári og segir sveitarstjórinn að allt bendi til að framhald verði á.

Nýjar umsóknir um íbúðalóðir á Hvammstanga tóku að berast sveitarstjórn Húnaþings vestra fyrir ári síðan. Þá hafði ekki verið byggt íbúðarhús á Hvammstanga í tæpan áratug.

<>

Sveitarstjórinn segir þetta gerast hratt

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri, segir þetta gerast hratt. „Það eru 18 lóðir sem hefur verið úthlutað og þar af eru flestir annaðhvort byrjaðir, eða búnir að skila inn teikningum. Eru bara í startholunum.”

Felldu niður gjöld á gömlum lóðum

Gatnagerðargjöld voru felld niður á lóðum sem staðið höfðu tilbúnar frá 2009 og flestar þeirra hafa verið seldar, segir Guðný. Nú eru hafnar framkvæmdir við nýja götu og byrjað að byggja þar. „Þetta er bæði fólk sem hefur flutt hingað á síðustu árum og svo er þetta fólk sem hefur verið inni á ættingjum. Og fólk sem hefur líka flutt heim, sem er uppalið hérna.”

Telur að þessi þróun haldi áfram

Margar ástæður séu fyrir þessarri þróun. Það virðist almennt aukin bjartsýni í samfélaginu og það skorti leiguhúsnæði. Þá sé mikill uppgangur í ferðaþjónustu og dæmi um að fyrirtæki byggi íbúðir fyrir starfsfólk. Verð á notuðu húsnæði fari hækkandi og það hafi líka áhrif. „Það virðist vera að skapast einhverskonar jafnvægi á milli þess sem fólk færi fyrir húsnæði sem það er að selja og hvað kostar að byggja. Þannig að ég á ekki von á öðru heldur en að þetta haldi áfram, þetta sé byrjunin.”

Heimild: Ruv.is