Home Fréttir Í fréttum Uppsveifla að hefjast á Egilsstöðum

Uppsveifla að hefjast á Egilsstöðum

204
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á síðustu sjö árum hefur fjölgað um 252 manns í þéttbýlinu á Egilsstöðum eða um rúm 11%. Þar stefnir nú í óvenjumiklar framkvæmdir og svo virðist sem uppsveifla sé að hefjast. Bæjarstjórinn segir að nýtt miðbæjarskipulag laði ný fyrirtæki í bæinn.

Nýir veitingastaðir, knæpur og hótel

Á Egilsstöðum hafa iðnaðarmenn nóg að gera þessa dagana enda nálgast háannatími í ferðaþjónustu. Mikið gistirými er í bænum og ferðamenn gera eitt og annað mögulegt. Í Skálanum er verið að innrétta nýjan veitingastað svokallaðan Diner eða matstofu að amerískri fyrirmynd. Annars staðar í bænum var opnað brugghús Austra og þar er nú búið að setja upp knæpu fyrir þyrsta ferðalanga. Á enn öðrum stað er ein nýjungin, Tehúsið, gisting og kaffihús í miðbænum. Rétt innan við Egilsstaði er svo verið að smíða nýtt 16 herbergja hótel við Lagafljót. Þar styttist í að fyrstu gestir mæti. „Það er markmiðið að vera tilbúin fyrir sumarið. Við ætlum við að vera með opið frá 1. júní. Það eru mörg handtökin á síðustu metrunum en þetta hefst,“ segir Kristín Hlíðberg Hótelstjóri á 1001 nótt.

<>

Nýr baðstaður við Urriðavatn

Enn ein viðbótin á Héraði og líklega sú stærsta er nýr baðstaður, Vök í Urriðavatni í Fellum rétt utan við Fellabæ. Þar sem gert verður út á eina drykkjarvottaða jarðhitavatnið á landinu. Framkvæmdir gætu hafist á næstunni en staðurinn opnar annað hvort vorið 2019 eða 2020. Hönnun er ekki að fullu lokið en fram hefur komið að kostnaðaráætlun nálgist einn milljarð.

Eftirspurn eftir lóðum að aukast

Á Egilsstöðum eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast við að minnsta kosti níu hús eða íbúðir. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að sveitarfélagið finni fyrir uppsveiflu í gengum aukinn áhuga á lóðum. Fyrirspurnir hafi borist í íbúðalóðir bæði á svokölluðu Suðursvæði og í Votahvammi. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað ætlar líka í framkvæmdir, leikskólinn í Fellabæ, hinum megin við Lagarfljót, verður stækkaður og íþróttamiðstöðin með viðbyggingu fyrir fimleika og frjálsar íþróttir. Þá áformar sveitarfélagið að fara í umtalsverðar og reyndar umdeildar framkvæmdir í fráveitumálum.

Iðnaðarhúsnæði og nýtt þjónustusvæði við flugvöllinn

Björn segir að þessu til viðbótar ætli fyrirtæki að byggja húsnæði á iðnaðarsvæði við Miðás og á nýju þjónustusvæði við flugvöllinn hefjist brátt framkvæmdir á vegum bílaleigu. Þar eru líka hugmyndir um nýja þjónustumiðstöð, fyrir slökkvilið, björgunarsveitir og áhaldahús.

Vilja reisa nýtt hótel í nýjum miðbæ

Nýtt miðbæjarskipulag á Egilsstöðum gæti klárast í sumar en þá verður loksins hægt að framkvæma í miðbænum. Björn segir að þar hafi ákveðnir aðilar sýnt áhuga á að byggja verslunarhúsnæði með íbúðum á efri hæðum. Þá vilji fyrirtæki reisa nýtt hótel í miðbænum. „Þetta eru aðilar sem eru í hótelrekstri og hótelstarfsemi bæði hér á landi og annars staðar í öðrum löndum sem hafa óskað eftir því að fá úthlutað lóð hér. Ég get ekki upplýst á þessari stundu um hvaða aðila er að ræða en þetta virðast vera alvöru hugmyndir,“ segir Björn.

Vegaframkvæmdir í grennd

Þessu til viðbótar má nefna að það stefnir í talsverðar vegaframkvæmdir í nágrenni Egilsstaða. Brátt verður nýr vegur í Skriðdalsbotni boðinn út og þá eru íbúar á Borgarfirði eystri vongóðir um að loksins verði ráðist í umtalsverðar vegabætur milli Egilsstaða og Borgarfjarðar. Þá eru allar líkur á að Vegagerðin smíði nýja brú yfir Jökulsá á dal á Efra-Jökuldal en sú brúarsmíði tengist lagningu á Kröflulínu 3.

Fækkun í sveitum

Rétt er að taka fram að þó að fjölgað hafi um 252 manns á Egilsstöðum á síðustu 7 árum er ekki sömu sögu að segja í öllu sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Á sama tímabili hefur fækkað um 20 íbúa í Fellabæ hinum megin við Lagarfljót. Þar bjuggu um áramót 395 manns. Á Egilsstöðum bjuggu um áramót 2464 manns en samtals í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði 3547. Á sama tíma og íbúum á Egilsstöðum hefur fjölgað um 252 á 7 árum hefur íbúum alls Fljótsdalshéraðs fjölgað minna eða um 146 mismunurinn skýrist af fækkun í Fellabæ og dreifbýli á Héraði.

Heimild: Ruv.is