Home Fréttir Í fréttum Meiri áhugi á smávirkjunum en búist var við

Meiri áhugi á smávirkjunum en búist var við

152
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Um eitt hundrað smávirkjanir gætu verið komnar á teikniborðið víða um land innan fárra ára að mati verkefnisstjóra hjá Orkustofnun. Frumathugun sýnir að samanlagt afl nýrra smávirkjana í Eyjafirði yrði að lágmarki 20 megavött.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar kynnti í dag skýrslu með 30 smávirkjanakostum í Eyjafirði. Um frumúttekt er að ræða og valdir þeir virkjanakostir sem taldir eru álitlegir. Fleiri kostir komi til greina. Áður hafði Dalvíkurbyggð látið vinna sambærilega skýrslu með 15 valkostum. Afl þessara 45 mögulegu smávirkjana er 20,4 megavött.

<>

Smávirkjanir geti gagnast þar sem raforku skortir

Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun , segir að smávirkjanir geti komið að gagni þar sem illa gengur að dreifa raforku um landið. „Þetta getur án nokkurs vafa hjálpað til. Og það er nú þess vegna sem við fórum af stað með þetta. Vegna þess að Rammaáætlun gengur afar hægt fyrir sig og það virðist nú ekki vera vænlegt til vinsælda á pólitískum vettvangi að styðja stórar virkjanir á hálendinu. Og það gengur mjög treglega að byggja upp flutningskerfi landsins. Þannig að þetta er allavega eitt af því sem við gætum gert.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Valkostir smávirkjana í Eyjafirði

Þróunin mun hraðari en búist var við

Tæpt ár er síðan Orkustofnun kallaði eftir hugmyndum frá landshlutasamtökum og sveitarfélögum um mögulegar smávirkjanir. Erla segir að þróunin hafi orðið mun hraðari en búist var við. Víða um land sé slík vinna hafin og hugmyndir að tugum virkjana komnar fram. „Og ef við fáum fjármagn til næstu fjögurra ára þá getur vel verið að við verðum búin að stilla upp yfir 100 virkjanakostum sem er þá hægt að moða úr,“ segir hún.

Geti orðið aukabúgrein bænda víða um land

Þetta séu þó einungis hugmyndir sem kalli á frekari rannsóknir og náið samráð við landeigendur. Hugmyndirnar verði aldrei allar að veruleika, en gefi ágæta mynd af þeim möguleikum sem eru til staðar. „Litlar vatnsaflsvirkjanir og mögulega lágvarmavirkjanir og jafnvel vindur með, getur alveg orðið aukabúgrein hjá bændum víða um land,“ segir Erla Björk.

Heimild: Ruv.is