Home Fréttir Í fréttum 14 mánaða töf á nýju sjúkrahóteli Landspítala

14 mánaða töf á nýju sjúkrahóteli Landspítala

191
0
Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Til stóð að nýtt sjúkra- og sjúklingahótel við Landspítalann yrði afhent í júní á síðasta ári en nú er ljóst að verktaki hússins mun ekki afhenda það fyrr en í ágúst á þessu ári í fyrsta lagi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um framkvæmdir við Landspítalann.

Í svarinu segir Svandís að tímaramminn sem settur var í upphafi hafi verið þröngur. Fljótlega hafi orðið ljóst að ekki næðist að klára verkið á tilsettum tíma. Þetta megi meðal annars rekja til öryggis- og áhættumats sem gert var vegna klæðningar hússins og þá hafi uppsteypu hússins seinkað.

<>

Svandís segir enn fremur að efnisöflun vegna festingakerfis hafi verið tímafrek sem og steinklæðningin sem sé hluti af listskreytingu hússins. „Miðað við núverandi áætlun verktaka má gera ráð fyrir að húsið verði fullbúið að utan og lóð frágengin í júlí, en innan húss má búast við að úttektum verði lokið í apríl 2018,“ segir í svarinu. Það megi því gera ráð fyrir að húsið verði afhent í ágúst eða 14 mánuðum á eftir áætlun.

Anna Kolbrún spurði ráðherrann einnig út í húsið sem hýsir jáeindaskanna. Íslensk erfðagreining gaf íslensku þjóðinni tækið í ágúst 2015.  Í svari ráðherrans kemur fram að upphaflega hafi kostnaður við húsið verið áætlaður 301 milljón en endanlegur kostnaður verið 355 milljónir eða 54 milljónum yfir áætlun.

Þá segir jafnframt að húsið fyrir jáeindaskannann hafi átt að vera tilbúið vorið 2017 en verið afhent haustið 2017. „Tafir helguðust af uppgjöri við verktaka og frágangi húsnæðis í framhaldi af því, svo sem tengingum á stjórnkerfum og virkniprófunum. “

Heimild: Ruv.is