Home Fréttir Í fréttum Takast á um lóð undir viðbyggingu Valaskjálfar

Takast á um lóð undir viðbyggingu Valaskjálfar

179
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Lóð undir stækkun á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum er orðin að bitbeini milli Fljótsdalshéraðs og VBS eignasafns sem keypti lóðarréttindi á uppboði.
Lóðin undir viðbygginguna varð viðskila við sjálft hótelið í viðskiptum fyrir hrun en þá voru lóðarréttindin sett að veði fyrir 516 milljóna króna skuld. Raunverulegt virði þeirra er mun minna.

Á lóðinni er heimil 5500 fermetra stækkun við Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum, ný bygging tengd hótelinu með tengibyggingu.

<>

VBS fjárfestingabanki lánaði til byggingarframkvæmda á lóðinni árið 2005 til félags sem tengdist Trésmiðju Fljótsdalshéraðs. Lóðarréttindin voru sett að veði fyrir láninu en framkvæmdir hófust aldrei.

Eftir að VBS fjárfestingabanki fór í slitameðferð keypti VBS eignasafn lóðarréttindin á uppboði, fékk afsal fyrir þeim og hugðist reyna að hámarka raunverulegt virði. Það hefur ekki gengið betur en svo að Fljótsdalshérað lítur svo á að lóðarréttindin séu nú á forræði sveitarfélagsins.

VBS eignasafn borgaði fasteignagjöld af lóðinni en Fljótsdalshéraði endurgreiddi þau í maí í fyrra. Sveitarfélagið hafnar því að framlengja lóðarleigusamning og telur að á sínum tíma hefði átt að vera óheimilt að veðsetja lóðina.

Fram kemur í stefnu VBS á hendur Fljótsdalshéraði að lóðamatið sé nú rúmar 14 milljónir en ætti að vera tæpar 25 milljónir væri miðað við verðmæti lóðanna sem Valaskjálf stendur á.

VBS eignasafn hefur krafist þess að fá leigusamninginn endurnýjaðan eða skaðabætur. Fljótsdalshérað krafðist frávísunar en Héraðsdómur Austurlands hafnaði því og verður fyrirtaka í málinu 3. maí.

Heimild: Ruv.is