Home Fréttir Í fréttum Stracta Constuction krefur Fjarðaál um 582 milljónir

Stracta Constuction krefur Fjarðaál um 582 milljónir

442
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stracta Constuction krefur Alcoa Fjarðaál um 582 milljónir í bætur vegna uppákomu síðasta vor þegar álverið kom fyrir vegatálmum við vinnubúðir á Reyðarfirði og hindraði að þær yrðu seldar. Framkvæmdastjóri Stracta segir fyrirtækið neyðast til að flytja inn notaðar íbúðaeiningar til að standa við samninga. Álverið telur fyrirtækið skulda sér um 40 milljónir.

Eftir að framkvæmdum við álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði lauk fyrir rúmum 10 árum keypti verktakafyrirtækið Stracta construction vinnubúðirnar sem reistar voru á byggingartímanum. Þetta var í raun lítið þorp þar sem tvö þúsund manns gátu búið. Stracta seldi íbúðaeiningar úr búðum í ýmis verkefni en neitaði að borga stöðuleyfisgjöld til Fjarðabyggðar þar sem fyrirtækið taldi fyrrverandi starfsmann sveitarfélagsins hafa spillt fyrir sölu á búðunum.

<>

Þau gjöld lentu þá á Alcoa Fjarðaáli og síðasta vor þegar Stracta hugðist fara á brott með það sem eftir var af starfsmannaþorpinu lét álverið setja upp vegatálma og kom fyrir stórum steyptum hnullungum á öllum vegum að vinnubúðunum.

Álverið rifti einhliða upphaflegum kaupsamningi að sögn álversins vegna vanefnda um frágang og rýmingu svæðisins. Einnig til að fyrirbyggja að meiri kostnaður lenti á álverinu vegna búðanna.

Hreiðar Hermannsson, framkvæmdastjóri Stracta, segir að íbúðaeiningarnar sem eftir eru hafi verið verðlagðar á 230 milljónir en tjón fyrirtækisins sé mun meira. Einingarnar höfðu verið seldar í hótelverkefni á Orrustustöðum í Skaftárhreppi.

Til að standa við samninga hafi þurft að flytja inn notaðar einingar sem hafi reynst dýrari. Stracta hefur stefnt álverinu fyrir sjálftöku og nemur heildarkrafan 582 milljónum fyrir utan vexti, virðisaukaskatt og málskostnað.

Álverið hefur hins vegar krafið Stracta um vangreidd stöðuleyfisgjöld; um 40 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa Fjarðaáli hefur verið tekið til á svæðinu en ekki er hægt að selja einingarnar á meðan málið er fyrir dómstólum.

Heimild: Ruv.is