Íslenskir aðalverktakar hf. áttu lægsta tilboð í gerð nýrrar vegtengingar Hafnavegar við Reykjanesbraut, við hringtorg nærri Fitjum. Alls bárust fjögur tilboð og buðu Íslenskir aðalverktakar tæpar 118,9 milljónir króna í verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 137 milljónir króna.
Ellert Skúlason ehf. bauð 122,8 milljónir, Háfell ehf. 153,6 milljónir og Ístak hf. 160,6 milljónir.
Verkið felst í nýbyggingu vegarins á um 850 m löngum kafla, og lokun á núverandi gatnamótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar vestan við hringtorgið, með tilheyrandi rifi malbiks og yfirborðsfrágangi umferðareyja Reykjanesbrautar, sem og landmótun og yfirborðsjöfnun utan hennar.
Á vef Vegagerðarinnar segir að verklok séu 15. september 2018. Gerð Hafnavegar skal þó lokið fyrir 15. ágúst 2018.
Heimild: Vf.is