Home Fréttir Í fréttum Ákærður fyrir 50 milljóna króna skattsvik

Ákærður fyrir 50 milljóna króna skattsvik

294
0
Mynd: VÍSIR/PJETUR

Sigurður Ragnar Kristinsson hefur verið ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri SS verks ehf. Í málinu eru einnig ákærð þau Unnur Birgisdóttir, tengdamóðir Sigurðar Ragnars, og Armando Luis Rodriguez.

<>

Meint skattsvik þeirra þriggja nema samanlagt tæpum 105 milljónum króna.

Í ákærunni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að brot þeirra þriggja eru talin varða við skattsvikaákvæði almennra hegningarlaga og geta varðað allt að 6 ára fangelsi auk fésektar.

Sigurður hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að hann kom heim til Íslands frá Spáni seint í janúar vegna gruns um stórfelldan fíkniefnainnflutning þaðan til Íslands í svokölluðu Skáksambandsmáli. Sigurði var sleppt úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn en hann er enn í farbanni. Ekki hefur verið gefin út ákæra í því máli en rannsókn þess er á lokastigum.

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, eiginkona Sigurðar Ragnars, er stórslösuð eftir slys á Spáni en þarlend yfirvöld settu hana í farbann. Sunna Elvira kom til Íslands fyrr í þessum mánuði.

Í skattsvikamálinu er Sigurður ákærður fyrir að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum á rekstrarárunum 2014 og 2015 með því að hafa oftalið innskatt um tæpar 34 milljónir króna á grundvelli fimm tilhæfulausra sölureikninga og vanframtalið virðisauka SS verks ehf. um tæpar þrjátíu milljónir króna.

Þá er Sigurður einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á rúmum 15 milljónum króna í staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna SS verks ehf. allt árið 2015 og fyrstu mánuði ársins 2016.

Tengdamóðir Sigurðar, Unnur Birgisdóttir, sem stýrði daglegum rekstri félagsins frá því í mars fram í ágúst á árinu 2016, og Armando Luis Rodriguez, sem tók við rekstrinum af Unni og stýrði félaginu þar til það fór í þrot síðla sama árs, eru einnig ákærð. Þau eru ákærð fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins né staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins þann tíma sem þau stýrðu því.

Heimild: Visir.is