Home Fréttir Í fréttum Kaupa hótelíbúðir fyrir 2,6 milljarða í miðborg Reykjavíkur

Kaupa hótelíbúðir fyrir 2,6 milljarða í miðborg Reykjavíkur

243
0

Almenna leigufélagið hefur fjárfest í þremur fasteignum í miðborg Reykjavíkur, sem telja samtals 54 hótelíbúðir. Um er að ræða fasteignirnar Lindargötu 34-36, Vatnsstíg 11 og Barónsstíg 28.

<>

Að auki keypti félagið fasteignina að Laugavegi 56, þar sem til stendur að byggja við núverandi hús. Að framkvæmdunum loknum, um mitt ár 2019, verða sextán hótelíbúðir á Laugavegi 56 auk veitingastaðar á jarðhæð. Með í kaupunum fylgdi rekstrarfélagið Reykjavik Apartments, sem hefur annast rekstur hótelíbúðanna undanfarin misseri undir heitinu Swan House. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda.

Með kaupunum, og eftir stækkun á Laugavegi 56, mun fasteignasafn Almenna leigufélagsins stækka um 3.157 fermetra. Heildarkaupverð fasteignanna og rekstursins, að framkvæmdakostnaði á Laugavegi meðtöldum, er 2,6 milljarðar króna. Kaupin munu leiða til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (EBITDA) Almenna leigufélagsins hækkar um 190-220 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Almenna leigufélagið á og rekur rúmlega tólfhundruð íbúðir. Íbúðirnar eru langflestar í langtímaleigu til einstaklinga, en 42 íbúðir eru nýttar í skammtímaleigu til ferðamanna. Eftir kaupin verða skammtímaleiguíbúðir félagsins því 112 talsins.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins segir félagið ánægt með þessa viðbót í fréttatilkynningu. „Almenna leigufélagið hefur allt frá stofnun lagt áherslu á að fjárfesta í miðborg Reykjavíkur og með kaupunum á Reykjavik Apartments styrkjum við enn frekar stöðu okkar á eftirsóknarverðustu svæðum höfuðborgarinnar,“ segir María Björk.

„Við erum auðvitað fyrst og fremst langtímaleigufélag en með því að auka hlutdeild í fasteignum sem leigðar eru ferðamönnum náum við fram aukinni áhættudreifingu í safnið og verjum okkur gegn sveiflum í hagkerfinu. Hótelíbúðir eru sérstaklega hentug fjárfesting fyrir okkur því einfalt er að nýta þær til langtímabúsetu ef breytingar verða á markaði fyrir ferðaþjónustu.“

Heimild: Vb.is