Home Fréttir Í fréttum Segir umhugsunarvert að Landsnet hafi ekki náð að leggja eina einustu raflínu

Segir umhugsunarvert að Landsnet hafi ekki náð að leggja eina einustu raflínu

145
0
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mynd: Vísir/Vilhelm

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það umhugsunarvert að frá því að fyrirtækið Landsnet, sem sér um raforkudreifingu í landinu, var stofnað, hefur það ekki náð að leggja eina einustu raflínu til að tryggja raforkuöryggi. Þá segir hann að afkoma Landsvirkjunar komi til með að batna á næstu árum vegna hagstæðari samninga við stórnotendur.

<>

Hörður Árnason var gestur Kristjáns Kristjánsson í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Þrettán ár eru síðan Landsnet var stofnað og hefur fyrirtækið aðeins náð að leggja eina raforkulínu á rúmum áratug. Þrátt fyrir að umframorka sé til í landinu er ekki hægt að tryggja raforku og á Akureyri er ekki hægt að byggja upp stóriðnað þar sem raforkuöryggi er skert.

„Frá því að Landsnet var stofnað árið 2005 þá hefur fyrirtækið ekki náð að leggja eina einustu nýja línu ef frá eru taldar línur sem tengdu Búðarhálsvirkjun og Þeistareykjavirkjun. Það er í raun og veru mjög umhugsunarvert því samfélagið er að breytast mjög mikið og samfélagið þarf mjög á raforku að halda,“ segir hann.

Staða Landsvirkjunar batnað mikið á síðustu árum
Hörður segir samfélagið vera að breytast mikið og orkuþörf að aukast. Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Virkjunin verður staðsett á stærsta aflsvæði fyrirtækisins, á Þjórsár og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir 6 aflstöðvar sem virkja kraft þessara tveggja árkerfa. Hörður segir að áður fyrr hafi virkjun ekki verið byggð fyrr en stór viðskiptavinur hafi verið fundinn en nú hafi það breyst.

„Í dag eru þetta fjölbreyttir viðskiptavinir úr mismunandi iðngreinum, það er hagvöxtur í samfélaginu, orkuskipti, gagnaver og ýmislegt sem er ekki beintengt hverri virkjun eins og var áður,“ segir hann.

Hörður segir jafnframt að staða Landsvirkjunar hafi batnað mikið á síðustu árum, meðal annars vegna þess að tekist hefur að hækka raforkuverð. „Síðast í fyrradag vorum við að fá hækkun á lánshæfismati og fyrirtækið er farið að fjármagna sig alfarið án ríkisábyrgða og hefur gert það alveg frá 2010.“

Lögð hefur verið áhersla á það síðustu tíu ár að fá betra verð frá stóriðjunni en áður var því flaggað að Ísland væri með lægsta raforkuverðið til stóriðjunnar. Hörður segir afkomu Landsvirkjunar eiga eftir að batna mikið á næstu árum með betri samningum.

„Það er ánægjulegt að raforkuverð til stórnotenda á Íslandi með þessum nýju samningum sé sambærilegt og það gerist best annars staðar,” segir hann.

Heimild: Visir.is