Home Fréttir Í fréttum Datt úr stiga og ber alla ábyrgð á því sjálfur

Datt úr stiga og ber alla ábyrgð á því sjálfur

321
0
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af 8,3 milljóna króna skaðabótakröfu manns sem féll rúma þrjá metra til jarðar úr stiga við Fjölbrautarskólann í Breiðholti haustið 2014. Maðurinn lenti á bakinu og er metinn með 13% örorku eftir slysið en dómurinn telur að hann geti engum kennt um nema sjálfum sér og gáleysi sínu.

Maðurinn var nemandi í kvöldskóla við húsasmíðadeild Fjölbrautarskólans í Breiðholti (FB). Um kvöldmatarleytið 25. september 2014 var hann að setja þakpappa á þak byggingar á kennslusvæði skólans.

<>

Hann ætlaði svo að fara niður af þakinu og steig niður í stiga við mæni hússins, sem rann undan honum á blautu malbiki með þeim afleiðingum að maðurinn féll til jarðar. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild, kenndi sér meins í hrygg en var útskrifaður samdægurs. Hann hefur síðan verið í sjúkraþjálfun og er með áðurnefnda örorkugreiningu.

Sagði starfsmenn skólans hafa brugðist skyldum sínum

Maðurinn fór í mál við ríkið og hélt því fram að slysið mætti rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna FB og ófullnægjandi aðstæðna við húsasmíðadeild skólans. Starfsmenn skólans hafi brugðist skyldum sínum með því að tryggja ekki betur að fólk gæti ekki slasast með þessum hætti á staðnum. Þannig hafi stiginn ekki verið fastur við þakbrúnina eða skorðaður að neðanverðu.

Fulltrúar skólans mótmæltu þessu: bentu á að vinnupallar hefðu verið við báðar langhliðar hússins sem nemendum hefði verið uppálagt að nota við ferðir sínar upp á þakið og niður af því. Maðurinn hafi valið hættulegustu leiðina niður af þakinu og þannig sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

Umsjónarmaður námskeiðsins sagðist ekki hafa haft vitneskju um að stiginn væri upp við mæninn og því síður hefði hann komið honum fyrir þar.

Þaulvanur þakviðgerðum og átti að vita betur

Við aðalmeðferð málsins fór dómari með öllum málsaðilum í vettvangsferð á slysstaðinn. Niðurstaðan er sú að héraðsdómur tekur undir með fulltrúum skólans og ríkisins og segir að ekkert liggi fyrir um að starfsmenn skólans hafi reist stigann „eða með einhverjum hætti heimilað nemendum að nota stigann til ferða upp og niður af þakinu“.

Einnig er litið til þess að maðurinn var 34 ára þegar slysið varð og hafði lokið fjórum önnum af fimm í námi sínu við húsasmíðadeildina, þar með talið áfanga um framkvæmdir og vinnuvernd þar sem fallvarnir voru sérstaklega kenndar. Þá hafði maðurinn umtalsverða reynslu af þakvinnu, hafði komið að vinnu við þakdúklagningu frá árinu 2005 og rekið fyrirtæki á því sviði með 6-8 undirmenn í eitt ár þegar slysið varð.

„Að teknu tilliti til aldurs og verklegrar reynslu stefnanda, sem og kennslu sem hann hafði hlotið, verður að telja að hann hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi þeirri leið sem hann valdi að fara niður af þakinu. Verður því ekki annað séð en að slysið verði að öllu leyti rakið til aðgæsluleysis stefnda sjálfs,“ segir í dómnum.

Heimild: Ruv.is