Eins og RÚV hefur greint frá, komu í ljós tvö gömul bæjarstæði undir lóðum í nýju íbúðahverfi við Svalbarðseyri. Lóðirnar voru fráteknar og að kröfu Minjaverndar þurftu að fara fram frekari rannsóknir áður en þeim yrði úthlutað. Framkvæmdir voru stöðvaðar á meðan.
Þessum rannsóknum er nú lokið og Katrín Gunnarsdóttir, fornleifafræðingur sem þeim stýrði, segir að engar frekari fornminjar hafi komið í ljós. Grafið hafi verið í gegnum margar lóðir og ekkert markvert leynst þar í jörðu.
„Nú getum við leyft fólki að byrja,“ segir Eiríkur H. Hauksson, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps. Tveimur lóðum þurfi þó að úthluta með sérstökum skilyrðum. „Fornleifarnar eru innan lóðamarka tveggja lóða, en þó utan byggingareitanna. Það má því grafa að vild í byggingareitunum sjálfum, en samráð þarf að hafa við Minjastofnun um framkvæmdir annars staðar á lóðunum.“
„Það eru 53 lóðir í þessu nýja hverfi, ætlaðar fyrir 104 íbúðir,“ segir Eiríkur. „Við erum að skrifa undir fyrstu lóðasamningana í vikunni, fyrir þrjú einbýlishús og tvö parhús. Það tafði okkur nokkuð að þurfa að stöðva framkvæmdir vegna fornleifanna, því við gátum ekki svarað fyrirspurnum fólks um lóðir á meðan. Hugsanlega hefðum við getað úthlutað fleiri lóðum ef þetta hefði ekki gerst.“
Heimild: Ruv.is