Gatnagerðargjald nýrra lóða í Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ miðast við um 32 þúsund krónur á fermetrann.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt skilmála við úthlutun og verð á 31 lóð við Fossatungu og Kvíslartungu í Mosfellsbæ.
Um er að ræða stækkun Leirvogstunguhverfis til austurs í átt að Köldukvísl. Leirvogstunguhverfið er sérbýlishúsahverfi í Mosfellsbæ sem afmarkast af Leirvoginum og Vesturlandsvegi.
Umsóknum um lóðir skal skilað á þar til gerðu eyðublaði ásamt fylgigögnum eigi síðar en 5. apríl 2018 á tölvupóstfangið mos@mos.is, en hægt er að sjá lista yfir lausar lóðir á vef bæjarfélagsins.
Verð lóða samanstendur af gatnagerðargjaldi sem er 32.082 kr. á fermetrann auk byggingaréttargjalds sem er misjafnt eftir húsagerð. Byggingaréttargjald er um það bil 18.000 kr. á hvern fermetra vegna einbýlishúsa, 14.000 kr. á hvern fermetra vegna parhúsa og 10.000 kr. á hvern fermetra vegna raðhúsa/keðjuhúsa. Fermetraverð reiknast á hámark leyfilegrar stærðar húss.
Heimild: Vb.is