Home Fréttir Í fréttum Svik við Vestfirðinga af verstu sort í vegagerð

Svik við Vestfirðinga af verstu sort í vegagerð

218
0
Frá Vestfjarðavegi Mynd: Vísir/Egill Aðalsteinsson

Bæjarstjórn Ísafjarðar gagnrýnir Alþingi og ríkisstjórn harðlega fyrir að standa ekki við fyrirheit um uppbyggingu þjóðvegarins um Dynjandisheiði í ályktun sem samþykkt var samhljóða, með níu atkvæðum gegn engu, á bæjarstjórnarfundi í fyrradag.

<>

Samkvæmt gildandi samgönguáætlun, sem Alþingi samþykkti haustið 2016, átti að verja samtals 850 milljónum króna til framkvæmda á Dynjandisheiði á árunum 2017 og 2018. Ekki var staðið við þau áform í fjárlögum Alþingis.

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega seinagangi í hönnun og undirbúningi vegna lagningar nýs vegar yfir Dynjandisheiði, milli Flókalundar, Dynjanda og Bíldudals,” segir í ályktuninni.

Forystumenn núverandi ríkisstjórnar. Þau sátu öll á þingi þegar samgönguáætlun var samþykkt samhljóða þann 12. október árið 2016.Mynd/Stöð 2.

„Telur bæjarstjórn sérstaklega ámælisvert að ekki hafi verið sett til hliðar fjármagn á árinu 2018 til að hefja framkvæmdir á nýjum vegi yfir Dynjandisheiði, líkt og gildandi samgönguáætlun mælir þó fyrir um. Vegurinn um heiðina mun leysa af hólmi 60 ára gamlan moldarveg.

Þessi vinnubrögð eru áfellisdómur yfir aðkomu Alþingis að frágangi fjárlaga yfirstandandi árs. Alla tíð hefur legið fyrir að vegur um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg eru nauðsynleg forsenda þess að Dýrafjarðargöng nýtist Vestfirðingum sem samgöngubót, enda hefur það jafnan verið óumdeild krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum að þessir vegir verði tilbúnir þegar kemur að verklokum jarðganganna.

Það væru svik af verstu sort við Vestfirðinga ef ekki verður tenging milli svæða á Vestfjörðum allt árið um kring, nú þegar langþráð markmið um framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hafa loksins náðst. Einnig þýddi það að fresta ætti nýtingu þeirrar miklu fjárfestingar sem göngin eru um nokkur ár, með tilheyrandi lækkun á arðsemi þeirra,” segir bæjarstjórn Ísafjarðar.

Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði lýsti því mati sínu síðastliðið sumar hér í frétt Stöðvar 2 að nýr vegur yfir Dynjandisheiði yrði betri en leiðin um Steingrímsfjarðarheiði.

Heimild: Visir.is