Home Fréttir Í fréttum Mósaíkflísar hrundu niður úr lofti eimbaðsins í Sundhöll Reykjavíkur

Mósaíkflísar hrundu niður úr lofti eimbaðsins í Sundhöll Reykjavíkur

513
0
Gestir Sundhallar Reykjavíkur áttu fótum sínum fjör að launa þegar mósaík-flísar hrundu úr lofti eimbaðsins. Mynd: Vísir/Anton Brink

Eimbaðið í Sundhöll Reykjavíkur verður ekki opnað á næstunni eftir að mósaíkflísar hrundu niður úr lofti þess í gærkvöldi. Greint var fyrst frá málinu á vef Ríkisútvarpsins en þar kom að þeir sem voru inni í eimbaðinu hefðu átt fótum sínum fjör að launa.

<>

Tók einn árvökull gestur eftir því að mósaík flísarnar höfðu bólgnað út, sá að ekki var allt með felldu og skipaði þeim sem voru í eimbaðinu að forða sér út.

Guðmundur Pálmi Kristinsson, verkfræðingur hjá skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar, segir í samtali að Vísi að hann hefði átt fund með hönnuði eimbaðsins og verktakanum, sem sá um framkvæmdina á því, í morgun. Hann segir ekki liggja fyrir hvað varð þess valdandi að flísarnar hrundu úr loftinu. Flísarnar eru 30 sentímetrar á breiddina og 60 sentímetrar á lengdina og hrundu sumar hverjar í heilu lagi.

Guðmundur segir koma til greina að fá óháðan aðila til að greina efni flísanna til að reyna að fá úr því skorið með nákvæmum hætti hvað gerðist. Hitastigið innan eimbaðsins er alla jafna 47 til 48 gráður og mikill raki þar inni. Gæti því raki og hiti hafa valdið því að flísarnar hrundu niður, en líkt og áður segir er það ekki vitað með vissu.

Guðmundur segir að vel geti komið til greina að skipta hreinlega um efni sem notað er til að klæða loft eimbaðsins, en það muni þó alltaf velta á hönnuði þess.

Hann segir því óljóst hvenær eimbaðið verður aftur aðgengilegt gestum Sundhallar Reykjavíkur en það verði þó ekki fyrr en búið verður að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur. Segir hann að eimbaðið verði í það minnsta ekki opnað aftur innan viku.

Sundhöllin var opnuð aftur í desember síðastliðnum eftir miklar endurbætur en þetta eimbað var hluti af þeim.

Heimild: Visir.is