Home Fréttir Í fréttum Milljón króna þjófnaður af byggingarsvæði

Milljón króna þjófnaður af byggingarsvæði

162
0

„Það tekur langan tíma að skoða hvað var tekið og að meta tjónið. En þetta hleypur á einhverjum milljónum,“ segir Ragnar Ólason, einn eigandi byggingarfélagsins Mótanda en brotist var inn á byggingarsvæði þeirra klukkan fimm í morgun.

<>

Rándýrum tækjum var stolið, mikið af batterísborvélum en verðmæti einnar slíkrar er um hundrað þúsund krónur. „Þau tóku líka handverkfæri og eiginlega allt sem tilheyrir flísurum og pípurum.“

Maður og kona voru að verki og hefur Mótandi birt myndband af þeim á Facebook síðu sinni þar sem þau sjást athafna sig. Maðurinn er klæddur í hvíta peysu og hvítar buxur en konan er svartklædd og með húfu.

Ragnar Ólason segist vona að notendur Facebook geti gefið vísbendingar um hvaða fólk er þarna á ferli. „Við vonum að fólk geti verið virkt í því með okkur að koma í veg fyrir svona vitleysinga.“ Myndir af þjófunum má sjá neðst í fréttinni.

Klipptu á vír og spenntu upp glugga
Tvímenningarnir hafa að öllum líkindum verið búnir að undirbúa þjófnaðinn þar sem þau voru fljót að athafna sig. Eins og sést á myndbandinu eru þau rétt tæplega korter að brjótast inn, fylla bílinn af verkfærum og keyra í burtu.

Byggingarsvæðið er afgirt en klippt var á mótavír sem heldur girðingu þess saman. Svæðið er í Kópavogi, nánar tiltekið við Álfhólsveg 22, en þar á að reisa sextán íbúða blokk. Parið fór einnig inn í fjórar íbúðanna með því að spenna upp glugga og hlutust af því skemmdir.

„Maður skilur þetta ekki,“ segir Ragnar sem hefur að sjálfsögðu tilkynnt lögreglu um innbrotið og afhent myndbandsupptökuna. „Þau hafa verið að dunda sér þarna inni í svolítinn tíma. Svo hleypur stelpan og opnar hliðið, hann keyrir niður og þau eru tíu mínútur að hlaða bílinn.“ Bílinn er af gerðinni Suzuki.

Ef einhver hefur upplýsingar um málið er sá hinn sami beðinn að hafa samband við lögreglu eða Ragnar Ólason beint í síma 6618820. Myndbandið má sjá hér.

Heimild: Vísir