Home Fréttir Í fréttum Íslandsbanki situr uppi með „Kreppuhöllina“

Íslandsbanki situr uppi með „Kreppuhöllina“

628
0
Mynd: RÚV
Rúmum þremur árum eftir að Íslandsbanki seldi 16.000 fermetra hús að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi hefur afsal ekki enn farið fram. Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, yfirmaður samskipta- og greiningardeildar Íslandsbanka. Húsið hefur staðið autt og ónotað allt frá því það reis árið 2010.

Húsið er 14.500 fermetrar auk 9.000 fermetra bílakjallara. Það er á fimm hæðum og er áberandi þar sem glerhlið þess snýr út að Breiðholtsbraut. Húsið var þrjú ár í byggingu og var markaðssett sem miðstöð opinberrar stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Þau áform gengu ekki eftir, byggingaverktakinn varð gjaldþrota, Íslandsbanki eignaðist húsið og það hefur alla tíð staðið autt.

<>

2013 voru uppi áform um að breyta húsinu í lúxusíbúðarhús en þau runnu út í sandinn. Í desember 2014 birti Íslandsbanki frétt um að hann hefði selt húsið. Heilsuboginn ehf. keypti það. Í ársreikningi félagsins frá 2016 er húsið verðmetið á 954 milljónir króna. Fram kom í Viðskiptablaðinu í september að það kosti fjóra milljarða að klára húsið.

Í september 2016 kom tilkynning á vef Sjúkratrygginga um að heilsugæslustöð ætti að koma í húsið.  Í skriflegu svari Sjúkratrygginga við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að „eitthvað hafi komið upp“ varðandi húsnæðið að Urðarhvarfi 8. Heilsugæslustöðin var því opnuð að Urðarhvarfi 14.

Skammtímaskuldir Heilsubogans ehf. nema rúmum milljarði. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðmundur Hjaltason, sem hefur m.a. starfað hjá Samskipum og Glitni.

Húsið var auglýst til sölu í janúar á fasteignavef Morgunblaðsins en auglýsingin hefur verið fjarlægð. Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Íslandsbanka um stöðu málsins.

Þrátt fyrir að rúm þrjú ár séu liðin frá því Íslandsbanki tilkynnti að hann hefði selt Urðarhvarf 8, hefur afsal ekki farið fram.

Í Kópavogsblaðinu er í janúar 2016 sagt frá hugmyndum um að Landsbankinn flytti höfuðstöðvar sínar í húsið, sem kallað er Kreppuhöllinn í greininni. Einnig hafi verið vangaveltur um að bæjarskrifstofur Kópavogs verði í húsinu en hvort tveggja þyki ólíklegt.

Heimild: Ruv.is