Forsvarsmenn leigufélagsins Heimavalla teja forsendur vera fyrir byggingu á 300-400 íbúðumá næstu 2-3 árum. Fyrirtækið fær ekki lóðir undir slíkan fjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu og því er litið til Suðurnesja.
Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu, en þar kemur fram að fyrirtækið vilji semja við byggingaverktaka um að reisa ódýrar og hagkvæmar íbúðir úr fjöldaframleiddum einingum. Heimavellir hafa rætt við danska framleiðendur og geta fengið pláss í framleiðslu í maí eða júní þessa árs fyrir 30-40 íbúðir sem tilraunaverkefni og gætu þær verið settar á grunna í haust.
Töluvert hefur verið fjallað um leigufélagið í fjölmiðlum, en Heimavellir keyptu sem kunnugt er um 700 íbúðir á Ásbrú og komst fyrirtækið í fréttir fyrir að hækka leigu áður en fyrsta greiðsla barst fyrir eignirnar. Þá hefur félagið hagnast gríðarlega frá því kaupin gengu í gegn. Kaupverð eignanna var ekki gefið upp en félagið vann að fjármögnun með skuldabréfaútgáfu í Kauphöll Íslands, sem virðist hafa dregist á langinn.
Heimild: Sudurnes.net