RARIK hefur um árabil rekið fjarvarmaveitu á Seyðisfirði þar sem vatn er hitað upp og dælt um bæinn. Í fyrra ákvað RARIK að loka veitunni og í staðinn býðst fólki aðstoð við að kaupa sér hitakút eða varmadælu. Bæjarbúar vilja hinsvegar flestir halda í miðlæga lausn. „Auðvitað telja menn að þetta sé hagkvæmara og stöðugra. Og síðan er það hitt að annars sé verið að færa viðhald og umsjón með húshituninni á hvern eiganda fasteignar,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Starfshópur á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinsins, Orkustofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar vegur nú og metur ýmsa kosti, eins og miðlæga varmadælu, eina eða fleiri, og hvort finna megi volgrur sem gætu gert miðlæga varmadælu hagkvæmari. Lausnir sem myndu nýta dreifikerfi og ofna í húsum fólks. „Þá eru menn kannski líka að horfa til þess að þegar verður af jarðgangagerð sem að við teljum að allt bendi til að verði Fjarðarheiðargöng til Fljótsdalshéraðs að þá kunni hitaveita að koma um göngin,“ segir Vilhjálmur.
Hinum megin við Fjarðarheiði er jarðhitavinnsla við Urriðavatn og nægt vatn til húshitunar á Seyðisfirði. Það gæti gert það álitlegra að setja fé í dreifikerfið. „Auðvitað hefur RARIK gefið það út að kerfi væri orðið mjög lúið og ekki rekstrarhæft til lengri tíma en þá kæmu kannski forsendur til að fara að endurnýja kerfið. Ef það væri ljóst að það væri orka í kerfið á hagkvæmum forsendum,“ segir Vilhjálmur.
Heimild: Ruv.is